135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

52. mál
[18:25]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ekki veit ég hvað menn læra í stærðfræðinni um skekkjumörk þegar um er að ræða 100 milljarða fjárfestingu eins og er í Kárahnjúkum. Ætli skekkjumörkin liggi ekki einhvers staðar á bilinu 5–15%? Það verður að segjast eins og er að nýjustu tölur sem heyrst hafa um framúrkeyrsluna í Kárahnjúkum eru ekki á því bili. Þær eru ekki 6–7% eins og forstjóri fyrirtækisins sagði í viðtölum og yfirlýsingum á blaðamannafundi fyrir áramót. Þær eru nær því að vera 65% umframkeyrsla og yfir 100% umframkeyrsla ef virðisaukaskattur er reiknaður með.

Það er því virkilega ástæða til þess að kalla eftir svari um raunverulegan kostnað af Kárahnjúkavirkjun og ég vil nota tækifærið hér, frú forseti, til þess að gera athugasemdir við það að svarið hefur ekki borist enn þá. Það átti að liggja fyrir 20. desember. Það hlýtur að fara að líta dagsins ljós.

Hv. þm. Pétur Blöndal hefur mikla trú á einkafjármagninu og einkaframtakinu. Ég hlýt að minna hann á að margreynt var að fá fjárfesta, einkafjárfesta og lífeyrissjóði, að byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Það tókst ekki vegna þess að menn sáu þar að þetta væri kannski ekki það arðsamasta sem í boði væri.