135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

52. mál
[18:26]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þekki nokkuð til skekkjumarka og ég var í hv. iðnaðarnefnd þegar þetta var til umræðu þar. Við fengum að kynna okkur útreikningana sem byggðu á Monte Carlo-aðferðum sem ég hef mikla trú á. Þeir útreikningar sýndu arðsemi af fjárfestingunni, reyndar ekkert voðalega mikla en ágæta arðsemi samt. Þá var sem sagt gengið út frá því að álverð mundi lækka um alla framtíð um 0,45% á ári, sem er náttúrlega fráleitt ef menn hafa trú á því að jörðin sé að hitna út af koldíoxíðlosun. Ef sú er reyndin að jörðin sé að hitna vegna koldíoxíðlosunar hljóta menn að fara að stoppa brennslu heilu fjallanna af kolum og heilu sjóanna af olíu til þess að framleiða rafmagn með slíkum brennsluefnum, menn hljóta að fara að stoppa það.

Hvað gerist þá? Þá mun orkuverð í heiminum hækka enn meira og alveg sérstaklega álið sem er háð orkuverðinu með beinum hætti. Það getur ekki annað en hækkað og hækkað enn frekar frá deginum í dag, ef menn hafa trú á þessari koldíoxíðlosun og mengunarkvótum. Mér líst því bara mjög vel á þetta, þetta er ákveðið framlag okkar Íslendinga til þess að minnka koldíoxíðlosun í heiminum. Mér líst líka ljómandi vel á þessar virkjanir í Þjórsá.

Varðandi trú mína á einkafjármagninu þá var þetta náttúrlega stór biti þarna í Kárahnjúkum. Við getum auðvitað prófað að selja þennan hluta út úr Landsvirkjun og séð hvað gerist, hvort það finnist ekki nægir fjárfestar til að kaupa það.