135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

störf þingsins.

[13:31]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til að leiðrétta það sem fram kom hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni við upphaf þings í gær að ég hafi ekki sagt satt og rétt frá í óundirbúnum fyrirspurnatíma á mánudaginn þegar ég sagði að enn hafi ekki verið hafnað neinum samningi um stuðningsfjölskyldur við fötluð börn hjá svæðisskrifstofu Reykjaness. Bar hv. þingmaður þar fyrir sig hádegisfrétt í RÚV í gær.

Mér þykir miður að hv. þingmaður hafi ekki látið mig vita um að hann ætlaði að bera mér á brýn ósannindi í umræðum á Alþingi en ég stend auðvitað við hvert orð sem ég sagði í umræðunum á mánudag. Svæðisskrifstofa Reykjaness sá ástæðu til að senda frá sér athugasemd við þessa frétt Ríkisútvarpsins í gær en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna hádegisfrétta í dag 4. mars óskar svæðisskrifstofa Reykjaness þess að leiðrétt verði það sem sagt var að yfirmenn SMFR hafi fullyrt að foreldrum fatlaðra hafi verið neitað um stuðningsfjölskyldur og tekur svæðisskrifstofan undir með Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, að of mikið hafi verið gert úr þessu máli í fjölmiðlum. Í kvöldfréttatíma útvarps 28. febrúar sl. sagði Sigríður Daníelsdóttir, sviðsstjóri hjá SMFR, að tólf stuðningsfjölskyldusamningar biðu afgreiðslu. Rétt er að árétta að svæðisskrifstofa hafnaði engum stuðningsfjölskyldusamningum heldur var foreldrum sem óskuðu eftir endurnýjun á samningnum tilkynnt um að bið yrði á afgreiðslu þeirra þar til fjárveitingar yrðu tryggðar. Ráðherra hefur að öllu leyti farið rétt með það að engri fjölskyldu fatlaðs barns hafi verið neitað um stuðningsfjölskyldu. Svæðisskrifstofan og félags- og tryggingamálaráðuneytið hafa haft góða samvinnu við lausn málsins og niðurstaðan er að engin skerðing verður á þjónustu við fötluð börn á Reykjanessvæðinu, hvorki í skammtímavistun né stuðningsfjölskyldum. Allar fyrirliggjandi umsóknir um stuðningsfjölskyldur hafa nú þegar verið afgreiddar.“

Eins og sést af þessu sem fram kemur hjá svæðisskrifstofu Reykjaness fór ég ekki með rangt mál í gær og það er auðvitað mjög alvarlegt þegar verið er að bera ráðherrum eða þingmönnum á brýn að segja ósatt úr ræðustól Alþingis. Ég hefði óskað eftir því að hv. þingmaður hefði látið mig vita um fyrirætlan sína.