135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

störf þingsins.

[13:41]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það kann vel að vera, eins og hæstv. ráðherra lýsir, að málið hafi þegar verið komið til umfjöllunar og meðferðar í ráðuneytinu. Það breytir ekki því að það var mjög mikilvægt að taka þetta mál upp eins og var gert í fjölmiðlum af hálfu Ríkisútvarpsins og í þinginu, að spyrja hver framvinda málsins væri. Kjarninn er auðvitað sá að hér eru margar fjölskyldur á ferðinni sem eiga rétt á þjónustu samkvæmt lögum. Þjónustan við þá var í uppnámi vegna þeirra svara sem þær höfðu fengið frá Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi, þ.e. að bið yrði á úrlausn fyrir þær vegna þess að það vantaði fjármagn. Það er auðvitað kjarni málsins og það er rétt að það er líka kjarni málsins að hægt sé að leysa málefni þeirra. Þess vegna spurði ég um það áðan: Er um að ræða aukafjárveitingu eða tilfærslu? Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kom með sambærilegar spurningar og nú hefur hæstv. félagsmálaráðherra upplýst að hér er um að ræða tilfærslu innan svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra. Það þýðir væntanlega að skera þarf einhvers staðar annars staðar niður eða að aukafjárveiting komi síðar og kann vel að vera að það verði gert.

Mikilvægast í þessu er að við erum að fjalla um fjölskyldur sem þurfa svo nauðsynlega á þessari þjónustu að halda. Það skiptir svo miklu máli fyrir börnin sem hér eiga hlut að máli að þau geti búið heima hjá sér og til að það geti gengið er það úrslitaatriði að samningar náist við stuðningsfjölskyldur og annað slíkt. Þegar loksins er búið að gera samninga við stuðningsfjölskyldur er mjög mikilvægt að þeir rofni ekki vegna þess að það er mikið mál að ná í stuðningsfjölskyldur. Ég vænti þess að sú umræða sem hér hefur farið fram um málið tryggi að þær fjölskyldur sem hlut eiga að máli muni njóta þeirrar þjónustu og þeirra samninga sem þær eiga rétt á, að þær fái fjármagn til þess og að ekki verði rof í þeirri þjónustu.