135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

störf þingsins.

[13:43]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það liggur alveg ljóst fyrir að hæstv. félagsmálaráðherra sagði ekki ósatt á mánudaginn og að hún svaraði satt og rétt. (Gripið fram í.) Ráðherrann sagði aldrei að samningum hefði verið hafnað. Það þurfti hins vegar að finna peninga og lausn á málunum. Þar komum við að þessu athyglisverða ástarfaðmlagi sem við urðum vitni að í dag milli Vinstri grænna og Framsóknarflokksins því að auðvitað er það þannig eftir framgöngu Framsóknarflokksins í þessum málum að nokkuð skortir á að peningar séu til reiðu. (Gripið fram í.) Mér þykir það athyglisvert að menn séu fljótir að ráðast að hæstv. félagsmálaráðherra sem hefur í fjáraukalögum og í fjárlögum haft forgöngu um að fá í málaflokkinn heilan milljarð til viðbótar. Það er algerlega ljóst að hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra sagði aldrei ósatt í þessu máli. Það er augljóst þótt svo hv. þingmaður sem bar það hér fram (Forseti hringir.) vilji ekki biðjast afsökunar á þeim orðum sínum sem ég tel þó að hann hefði átt að gera. Hvergi hefur verið brotinn réttur á þessu fólki en (Forseti hringir.) unnið er að lausn málsins. Það liggur alveg ljóst fyrir.