135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

störf þingsins.

[13:47]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Huld Aðalbjarnardóttur fyrir að taka þetta málefni upp. Það er alveg hárrétt, eins og hún nefnir, að þetta er mikið alvörumál fyrir atvinnurekstur í sveitum þar sem ekki er hægt að nálgast þriggja fasa rafmagn. Hún spurði hvort nefndin hefði tekið þetta upp. Því er til að svara að málið hefur ekki verið tekið upp á formlegum fundum nefndarinnar.

Hins vegar kom það mjög skýrt fram, þegar sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd var á ferðalagi í haust á Norður- og Austurlandi, hjá mörgum aðilum til sveita hversu mikið hagsmunamál um er að ræða. Við heimsóttum m.a. Eymund Magnússon í Vallanesi sem stundar lífræna ræktun. Það kom mjög vel fram hjá honum hversu mikið hagsmunamál þetta er í hans framleiðslu — hann er með framleiðslu heima á búinu og hefur þurft að beita tæknilausnum sem eru ekki mjög hagkvæmar til þess að geta keyrt vélar sínar og tæki sem þarf við framleiðsluna.

Okkur í nefndinni er því fullkomlega ljóst hversu mikið hagsmunamál þetta er. Ég hef hins vegar þær upplýsingar frá dreifiveitunum að þær séu að auka framboð á þriggja fasa rafmagni til sveita og gera það samfara því að Rarik er t.d. að styrkja dreifikerfið og er þá jafnframt að bæta þessu inn í að rafmagnið verði þriggja fasa.

Í þetta hefur auðvitað verið sett töluvert fjármagn, Rarik hefur m.a. sett í þetta verkefni (Forseti hringir.) nokkur hundruð milljónir á þessu ári.