135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

störf þingsins.

[13:53]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég kveð mér hljóðs til að vekja athygli á vægast sagt afar einkennilegum ummælum upplýsingafulltrúa ríkisfyrirtækis sem heitir Landsvirkjun í Fréttablaðinu í dag. Hann fjallar þar um ágætt verkefni, gagnaver í Keflavík, á vegum Verne Holding og heldur því fram og segir það fullum fetum í blaðinu að það sé skilyrði fyrir orkusölu Landsvirkjunar til þessa fyrirtækis, Verne Holdings, sem er svona hluti af hinni nýju hátæknistóriðju, sem hefur þarf allt öðruvísi orkuöflun, að virkja í Þjórsá.

Óvíst er að gagnaver rísi í Keflavík því að Landsvirkjun setur virkjun Þjórsár sem skilyrði fyrir raforkusölu til þess, segir um þetta í Fréttablaðinu . Nú er það þannig að þetta gagnaver þarf heil 25 megavött og þarf það í nokkrum pörtum, sennilega í þremur, fjórum áföngum. Ekki verður því séð að efnislega hafi Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, nokkurn skapaðan hlut undir sér. Margar leiðir eru til að afla þessarar orku ef Landsvirkjun vill fá ráð til þess. Það sem Landsvirkjun er hins vegar er að gera er augljóslega það að hún er að reka áróður eins og hver annar stjórnmálaflokkur eða hagsmunasamtök. Hún er að nota vinsælt mál, sem þessi gagnaver eru, til þess að koma áfram fyrirætlunum sínum um virkjanir í Neðri-Þjórsá, sem er ákaflega óvinsælt mál.

Og hvernig stendur málið? Vatnsréttindin eru hjá ríkinu. Það er Alþingi sem er að afhenda þessi vatnsréttindi. Þannig að Landsvirkjun er hér að nota gagnaverið í Keflavík sem fjárkúgun, sem „blackmail“, á Alþingi. Það er þannig að virkjunarleyfi hafa þeir ekki heldur og eru að reyna að útvega sér það með þessum hætti. Og ég spyr: Hvað á þetta sjálfstýrða apparat eiginlega að komast upp með af dónaskap og frekju í garð kjörinna fulltrúa, í garð ríkisstjórnarinnar og í garð alls almennings? (Forseti hringir.) Ég vil gjarnan heyra hvað forustumenn í iðnaðarnefnd og umhverfisnefnd hér á þinginu segja um þetta mál. (Gripið fram í: Og iðnaðarráðherra.)