135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

störf þingsins.

[14:00]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er algerlega óþarft fyrir hv. þm. Helga Hjörvar að bera blak af upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar og segja að hann hafi ekki talað um ófrávíkjanleg skilyrði vegna þess að á heimasíðu Landsvirkjunar má lesa að orkan í neðri hluta Þjórsár er seld. Það er fyrirsögnin: Orkan í neðri hluta Þjórsár seld með fyrirvara um að leyfi fáist. Þetta getur ekki verið skýrara. Það er ítrekað í fréttinni á heimasíðu Landsvirkjunar að sá fyrirvari sé í samningnum um gagnabúið fyrir raforkusölu Landsvirkjunar að öll leyfi fáist, þar á meðal virkjunarleyfi fyrir virkjunum fyrirtækisins í neðri hluta Þjórsár.

Það er líka óþarfi fyrir hv. þm. Kristján Þór Júlíusson að tala eins og Landsvirkjun beri voðalega mikla virðingu fyrir Alþingi. Við skulum ekki gleyma samningnum sem var gerður um framsal á vatnsréttindum í Þjórsá án fyrirvara. Undir þann samning var skrifað án fyrirvara og við það var einmitt gerð harkaleg athugasemd hjá ríkisendurskoðanda.

Ég spyr: Hvernig getur þetta fyrirtæki sett sem ófrávíkjanlegt skilyrði, eins og þarna er sagt, að virkja í Þjórsá? Ég vil benda á að það hrúgast upp orka í kerfinu. 25 megavött er fjórðungurinn af því sem varð laust aftur í kerfinu þegar Kárahnjúkavirkjun tók til starfa. Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur framleiða inn á kerfið og hætta að kaupa af Landsvirkjun vegna þess að það er ódýrara að framleiða rafmagn hjá þessum fyrirtækjum í jarðvarmaveitum heldur en að kaupa það í heildsölu af Landsvirkjun. Þetta er fyrirsláttur. Það er nóg rafmagn í kerfinu.