135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

gjaldmiðilsmál.

439. mál
[14:03]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Bjarni Harðarson) (F):

Frú forseti. Málið sem ég vil vekja til umræðu og beina fyrirspurn að forsætisráðherra sérstaklega snertir í raun það sem er efst á baugi í umræðunni í dag, þ.e. gjaldmiðilinn. Vegna þrenginga í íslensku efnahagslífi verður mönnum tíðrætt um að íslenska krónan gegni ekki gallalaust því hlutverki sem gjaldmiðill þarf að gegna. Hér er mikið vandamál vegna ofurvaxta sem sliga bæði heimili og fyrirtæki.

Íslensku bankarnir eru í erfiðari stöðu en ella vegna þeirra litlu myntar sem við búum við og það er enginn vafi á því í mínum huga að við göngum nærri útflutningsatvinnuvegunum í landinu með hátt skráðu gengi. Það er ekki góð búmennska til framtíðar að blóðmjólka þannig bestu mjólkurkúna.

Margir hafa litið til evrunnar í þessu samhengi, sem er ekki óeðlilegt, sem er sá gjaldmiðill á því efnahagssvæði sem við eigum hvað mest viðskipti við. En nú hefur komið skýrt fram, nú síðast eftir heimsókn hæstv. forsætisráðherra til Brussel, að einhliða upptaka evrunnar er alls ekki til umræðu.

Önnur leið í því er vitaskuld sú að skoða inngöngu í Evrópusambandið. En eins og margoft hefur verið bent á er ekki eining um það, hvorki meðal þings né þjóðar. Þjóðir hafa lagt upp í þá vegferð, skýrasta dæmið um það eru Norðmenn, og í rauninni staðið fjær markinu áratug síðar en þegar ákveðið var að ganga þar inn. Þess vegna hafa margir hafa bent á það á undanförnum missirum að til séu aðrar lausnir í þessum efnum.

Sjálfur hef ég skrifað greinar um það í meira en ár að ég held að við eigum að horfa til annarra gjaldmiðla og hafa ýmsir orðið til að taka undir þau orð, nú síðast tveir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks, að skoða megi í þessu samhengi upptöku á svissneskum franka. Það hljómar kannski svolítið ólíkindalega að tala um svo fjarlæga mynt en það vill svo til að svissneski frankinn er í nákvæmlega sömu hagsveiflu til síðustu 20 ára og evran og það eru fordæmi fyrir því að Sviss hafi gert samninga við annað land um myntbandalag.

Þess vegna langar mig að beina þeirri fyrirspurn til forsætisráðherra, sem fer með forustu okkar Íslendinga í efnahagsmálum, hver afstaða hans er í þessum efnum og hvort hann sjái að það séu fleiri en tvær leiðir til í stöðunni, annars vegar upptaka evru og hins vegar að viðhalda krónunni, sem auðvitað er ein leiðin.