135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

gjaldmiðilsmál.

439. mál
[14:08]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Menn hafa sagt að það að taka upp evruna sé hið sama og að tengjast Evrópusambandinu. Við Íslendingar höfum 600 ára reynslu af því að vera tengd þjóð úti í Evrópu. Sú reynsla var ekki góð.

Ég held að við ættum heldur að halda upp á krónuna okkar sem hefur dugað okkur ágætlega síðan við urðum fullvalda ríki og standa vörð um hana. Þau vandamál sem við glímum við eru öll meira og minna heimatilbúin. Ég held að ef við tækjum upp evru þá mundi íbúðaverð hækka annað eins og það gerði síðast þegar vextir voru lækkaðir því það fylgja því bæði kostir og gallar að taka upp nýja mynt.