135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

Ísland sem alþjóðleg fjármálamiðstöð.

443. mál
[14:14]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Að undanförnu hefur verið nokkur umræða um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð. Hér er um afar athyglisvert og mikilvægt mál að ræða en umræðan um þetta mál er ekki að hefjast núna.

Í ræðu á viðskiptaþingi í febrúar 2005 lýsti Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, framtíðarsýn sinni varðandi stöðu Íslands í alþjóðlegum fjármálaheimi. Þar sagði hann m.a., með leyfi forseta:

„Ég á mér þann draum að í framtíðinni verði Ísland þekkt um víða veröld sem alþjóðleg fjármálamiðstöð. Að hér á þessari litlu og hjartfólgnu eyju starfi kraftmikil alþjóðleg fyrirtæki sem hafa kosið að eiga hér höfuðstöðvar vegna ákjósanlegra skilyrða af hálfu stjórnvalda, vegna þess mannauðs sem í landinu býr og vegna mikils og góðs stöðugleika, hvort sem er í efnahagslegu eða stjórnmálalegu tilliti.“

Í ræðunni fór Halldór nánar yfir þetta mál og þau tækifæri sem í því felast. Í framhaldi af þessu viðskiptaþingi skipaði hann nefnd undir forustu Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns Kaupþings, sem fékk það verkefni að fjalla um og skila tillögum sem stefna að því markmiði að Ísland verði alþjóðleg fjármálamiðstöð. Nefndin skilaði þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, skýrslu með tillögum í október 2006. Heiti þeirrar skýrslu er Alþjóðleg fjármálastarfsemi á Íslandi.

Um leið og Geir H. Haarde, þáverandi hæstv. forsætisráðherra, tók við niðurstöðunum kom fram hjá honum að ríkisstjórnin mundi þegar hefjast handa við að hrinda tillögunum í framkvæmd og vinna að markmiðinu um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð. Síðan það var hefur orðið breyting á ríkisstjórn og margir eru forvitnir um hvort áform hæstv. forsætisráðherra í málinu hafi breyst samhliða því.

Öllum má vera ljóst að þetta er mikið áhugamál okkar framsóknarmanna enda farið af stað með það að okkar frumkvæði. Á málstofu BSRB um lífeyrismál í síðustu viku kom fram hjá Sigurði Einarssyni að tilvalið sé fyrir Ísland að marka sér bás sem alþjóðleg fjármálamiðstöð. Orðrétt sagði hann, með leyfi forseta:

„Hér höfum við reynsluna, menntunarstigið er hátt, fjármálaþjónusta greiðir há laun, afleidd störf eru mörg og eftirsóknarverð. Og staðsetning landsins er ekki hamlandi ólíkt því sem gerist í margs konar öðrum þjónustustörfum. Ég bind enn vonir við að stjórnvöld taki efni skýrslunnar til gaumgæfilegrar athugunar.“ — En þarna vitnaði hann í skýrsluna sem ég nefndi hér áður.

Vegna alls þessa hef ég lagt fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra:

Hvernig hefur tillögum nefndar ráðherra um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð verið fylgt eftir?