135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

skýrsla Vestfjarðanefndar.

458. mál
[14:26]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Þann 15. mars 2007 skipaði forsætisráðherra nefnd til að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum. Átti sú nefnd að skila af sér fljótt og gerði það í aprílmánuði skömmu fyrir síðustu alþingiskosningar. Ástæðan er einföld og augljós: Viðvarandi fólksfækkun í fjórðungnum. Þannig hafði fólki fækkað um tæplega 14% frá 1997 þar til þessi nefnd var skipuð á síðasta ári.

Tillögur nefndarinnar voru viðamiklar og fyrsta tillagan sem getið er um fjallar um að flýta fyrirhuguðum framkvæmdum á Vestfjörðum í samgönguáætlun. Markmiðið með þessum tillögum öllum var að fjölga Vestfirðingum úr 7.470, eins og þeir voru þá orðnir, upp í 8.300 árið 2020. Fyrsta tillagan var að flýta þegar ákveðnum samgönguframkvæmdum.

Þetta er greinilega mjög öflug aðgerð vegna þess að sömu framkvæmdir voru orðnar mótvægisaðgerðir tveimur mánuðum síðar þegar ákveðið var að skera þorskkvótann niður um þriðjung. Þessi flýting á framkvæmdum á því bæði að fjölga Vestfirðingum upp í 8.300 á nokkrum árum og koma í veg fyrir að þeim fækki vegna niðurskurðar í þorskveiðum. En aðrar tillögur eru samtals 37, sem eru listaðar í skýrslunni, upp á samtals um 85 ný störf á Vestfjörðum á rúmum tveimur árum.

Í úttekt sem gerð var á stöðu mála af Vestfjarðanefndinni sjálfri, og birtust í fréttum í janúarmánuði, kemur fram, samkvæmt því sem Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ, segir, að 28,5 störf áttu að verða til á Vestfjörðum á síðasta ári, en urðu ekki nema 18,8 og fyrst og fremst hafi skortur á fjárheimildum gert það að verkum að markmiðið náðist ekki.

Atvinnumálanefnd Vesturbyggðar lét málið til sín taka í síðasta mánuði og ályktaði á þann veg að hún harmaði að ekki að hafi verið fylgt þeim tillögum sem nefndin lagði fram. Um það bil helmingi tillagna nefndarinnar hefði verið frestað og fjármagnið hefði einnig verið skorið niður um helming.

Í framhaldi af þessu hef ég leyft mér að bera fram fyrirspurnir til hæstv forsætisráðherra á þingskjali 728:

1. Hvenær er þess að vænta að tillögur Vestfjarðanefndar forsætisráðherra frá apríl 2007 verði að fullu komnar til framkvæmda?

2. Hvers vegna hefur u.þ.b. helmingi tillagna nefndarinnar verið frestað og fjármagn skorið niður um helming, eins og fram kemur í samþykkt atvinnumálanefndar Vesturbyggðar frá 5. febrúar sl.?