135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

skýrsla Vestfjarðanefndar.

458. mál
[14:29]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur búseta og atvinnulíf á ýmsum stöðum á landsbyggðinni því miður átt undir högg að sækja. Vestfirðir eru dæmi um svæði þar sem slíkt ástand hefur ríkt. Stjórnvöld hafa ákveðið að efla verulega samgöngur og aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu á þessum svæðum með markvissum hætti. Þannig hefur verið ákveðið að flýta fyrirhuguðum framkvæmdum og verja á næstu þremur árum allt að 13 milljörðum kr. til framkvæmda við vegi, jarðgöng, fjarskipti og snjóflóðavarnir á Vestfjörðum.

Tillögur Vestfjarðanefndarinnar svokölluðu miða að því að blása ungu fólki, sem og öllum Vestfirðingum, í brjóst aukna bjartsýni á möguleika svæðisins til búsetu og atvinnuuppbyggingar með því að efla starfsemi opinberra stofnana á svæðinu.

Í skýrslu nefndarinnar er, auk almennra tillagna, að finna 37 tillögur um afmörkuð verkefni sem geta falið í sér allt að 80 ný störf á Vestfjörðum. Um er að ræða verkefni á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar sem í samvinnu við fyrirtækin á svæðinu geti snúið atvinnuþróuninni við til aukinnar verðmætasköpunar. Tillögurnar kalla á viðbótarkostnað upp á rúmlega 500 millj. kr. á ári þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda.

Frá því að tillögur Vestfjarðanefndarinnar voru lagðar fram hafa stjórnvöld þurft að taka ákvörðun um þriðjungsniðurskurð á aflaheimildum í þorski, eins og öllum er kunnugt. Ríkisstjórnin hefur reynt að koma til móts við þær sjávarbyggðir sem verst fara út úr þeim niðurskurði með svokölluðum mótvægisaðgerðum en áhrifa þeirra fer brátt að gæta.

Strax vorið 2007 fól ég Vestfjarðanefndinni að fylgja tillögum sínum eftir gagnvart viðkomandi ráðuneytum. Tillögurnar voru misjafnlega vel útfærðar og undirbúningur verkefna mislangt á veg kominn. Í nokkrum tilvikum var lagabreytinga þörf til að flytja verkefni opinberra stofnana til Vestfjarða.

Strax í maí 2007 voru tæplega 10 störf auglýst laus til umsóknar. Í undirbúning fjáraukalaga 2007 og fjárlaga 2008 ákvað ríkisstjórnin að beita sér fyrir auknu fjármagni til að tryggja fjárhagslegan framgang verkefnanna. Í fjárlögum 2008 er þannig tryggt fjármagn til að styðja við 28 afmörkuð verkefni sem fela í sér 46 ný störf á Vestfjörðum. Þess er vænst að þau verkefni leiði af sér aukið umfang og fleiri störf þegar fram líða stundir.

Í upphafi þessa árs hafði tekist að ráða í 19 störf. Í auglýsingum voru 7 störf og í undirbúningi eða í biðstöðu voru önnur 20 störf. Síðan þá hafa borist fréttir af verkefnum sem verið er að koma í gang, eins og svokallaðri Þjóðtrúarstofu á Hólmavík.

Í ályktun atvinnumálanefndar Vesturbyggðar, sem hv. fyrirspyrjandi vísar til, gætir misskilnings. Fjármagn til verkefna sem Vestfjarðanefndin lagði til hefur ekki verið skorið niður. Það tekur tíma að útfæra þessi verkefni og ráða fólk til starfa og staðreyndin er sú að ekki hefur tekist að nýta allt það fjármagn sem þegar hefur verið veitt til þessara verkefna í fjárlögum 2008, m.a. vegna skorts á sérhæfðu fólki. Þess er þó vænst að úr rætist á næstu mánuðum.

Vestfjarðanefndinni er áfram ætlað að fylgja tillögum sínum eftir gagnvart ráðuneytum og stuðla að framgangi verkefna sem lögð eru til í skýrslu nefndarinnar.