135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

skýrsla Vestfjarðanefndar.

458. mál
[14:34]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér bryddar fyrirspyrjandi upp á mjög mikilvægu máli, þ.e. hagsmunum Vestfirðinga og Vestfjarða, byggðapólitíkinni í landinu og því plaggi sem þar var lagt fram til þess að reyna að vinna bug á þeirri fólksfækkun sem þar hefur verið.

Komið hefur fram í umræðunni að margt af því sem sett var fram í Vestfjarðatillögunum hafi ekki gengið eins hratt eftir og menn áttu von á. Það hefur einnig gætt misskilnings varðandi framkvæmdina, að þetta ætti að gerast allt á fyrsta ári, og skilaboðin hafa ekki í öllum tilfellum verið skýr frá þeim sem stóðu að skýrslunni með tillöguflutningi inn í fjárlögin. Úr þessu verður vonandi bætt og ég treysti á að við fáum að vinna áfram að þessum málum í fjáraukalögum og nýjum fjárlögum fyrir árið 2009, eins og hæstv. forsætisráðherra gerði grein fyrir, þannig að hægt sé að vinna af fullum krafti að því að bæta atvinnuástandið á Vestfjörðum.