135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

skýrsla Vestfjarðanefndar.

458. mál
[14:35]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Ég les það úr þeim að það er eindreginn vilji ráðherrans að tillögurnar allar komi til framkvæmda á þeim tíma sem að er stefnt í skýrslu nefndarinnar. Ég held að það hljóti að vera grundvallaratriði í málinu að þessi vilji oddvita ríkisstjórnarinnar liggur fyrir. Ég vildi því beina því til hæstv. forsætisráðherra að gera ráðherrum sínum viðvart um þennan vilja ríkisstjórnarinnar þannig að þeir vinni að framgangi tillagnanna í samræmi við þær tillögur sem liggja fyrir frá nefndinni. En það er staðreynd sem menn geta gengið úr skugga um ef þeir kjósa svo að borið hefur verið við fjárskorti sem ástæðu þess að sumum tillögum hefur ekki verið hrint í framkvæmd á þeim tíma sem til stóð. Því verða ráðherrar ríkisstjórnarinnar að bera ábyrgð á því að ég þykist vita að fjárlaganefnd þingsins hafi lagt sitt af mörkum eins og af henni var ætlast í þessu efni.

Eins og fram kom er ýmislegt fleira en ný störf í tillögum nefndarinnar og það sem skiptir kannski mestu máli eru framfarir í samgöngumálum. Nefndin leggur mikið upp úr því að þeim verði hraðað til þess að unnt sé að ná því markmiði að íbúum fjórðungsins fari að fjölga á nýjan leik.

Í ljósi þess að ríkisstjórnin ákvað að skera verulega niður þorskheimildir og að sá niðurskurður verður mjög viðvarandi er enn frekar ástæða til þess að vel verði unnið í nýjum samgöngubótum. Ekki bara í þeim sem þegar hafa verið ákveðnar í (Forseti hringir.) samgönguáætlun heldur að bæta nýjum við þannig að takist að skapa viðspyrnu fyrir fjórðunginn, virðulegi forseti.