135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

skýrsla Vestfjarðanefndar.

458. mál
[14:37]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að efast um góðan vilja ríkisstjórnarinnar og einstakra ráðherra í þessu efni og það er unnið eftir þessari áætlun eins og efni standa til. Það hefur ekki strandað á fjárveitingum í þessu efni heldur því að til staðar hafi verið fólk sem er tilbúið að ráða sig til þessara starfa.

Að því er varðar fyrirspurn hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum hef ég ekki tekið afstöðu til þess máls enda tel ég að margt sé nú enn þá óljóst hvað það mál varðar. Ég skil hins vegar vel að heimamenn á Vestfjörðum, eins og t.d. hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fagni öllum nýjum hugmyndum um atvinnuuppbyggingu á heimasvæði þeirra.