135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

löggæsluskóli á Keflavíkurflugvelli.

371. mál
[14:39]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björk Guðjónsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Tilefni fyrirspurnar minnar til hæstv. dómsmálaráðherra er það að hann skipaði nefnd í ágúst sl. til að gera tillögu um uppbyggingu alhliða löggæslu- og öryggismálaskóla og einnig var sömu nefnd falið að meta möguleika á því að starfsemi löggæslu- og öryggismálaskóla fari fram á fyrrum varnarsvæðum á Keflavíkurflugvelli. Eftir því sem ég best veit hefur nefndin nú lokið störfum. Þess vegna spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra hvort vænta megi að fyrirhugaður skóli verði stofnsettur á Keflavíkurflugvelli.

Á Keflavíkurflugvelli eru kjöraðstæður fyrir hendi fyrir löggæslu- og öryggisskóla sem styður það að slíkur skóli eigi að byggjast upp á Keflavíkurflugvelli á fyrrum varnarsvæðum. Þar er góð aðstaða til kennslu nú þegar fyrir hendi. Kennslan getur farið fram á einum stað og landrými er nægjanlegt fyrir sérstaka þjálfun og kennslu utan dyra sem öryggisskóla er nauðsynlegt. Á vallarsvæðinu eru til staðar þau íþróttamannvirki sem þarf til kennslu og æfinga og leyfi ég mér að nefna sérstaklega sundlaugina sem er sú dýpsta á landinu og hentar því vel til kennslun í köfun og björgunarstörfum. Í næsta nágrenni er síðan alþjóðaflugvöllur þar sem nemendur gætu eflaust notið þjálfunar í landamæravörslu og á ýmsum öðrum sviðum. Þarna er fjölmennt tollgæslulið, eitt það fjölmennasta á landinu, og einnig starfar í flugstöðinni mikill fjöldi öryggisvarða sem eflaust kemur til greina að hljóti þjálfun og menntun í nýjum löggæslu- og öryggismálaskóla. Þá er embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum næststærsta lögreglulið landsins sem býr yfir mikilli þekkingu, m.a. vegna starfa sinna á alþjóðaflugvelli.

Fyrir skömmu flutti Landhelgisgæslan hluta af starfsemi sinni til Keflavíkurflugvallar og Brunamálaskólinn er nú þegar fluttur með starfsemi sína á svæðið. Það er ekki hægt að segja annað en að gamla varnarsvæðið sé rétti staðurinn fyrir slíkan skóla enda hefur í áratugi farið fram á þessum stað þjálfun vegna öryggismála landsins. Á svæðinu er Keilir, miðstöð menntunar og fræða, sem býður upp á samstarf við helstu háskóla landsins. Háskóli Íslands er stærsti hluthafi Keilis. Nýr löggæslu- og öryggismálaskóli gæti því auðveldlega tengst námi á háskólastigi í gegnum Keili.

Ég tel að það hljóti að skipta töluverðu máli að á vallarsvæðinu eru nemendaíbúðir til reiðu á hagstæðum kjörum sem án efa munu laða til sín nemendur bæði utan af landi og af höfuðborgarsvæðinu. (Forseti hringir.) Það hlýtur því að vera hagkvæmt að staðsetja löggæslu- og öryggismálaskóla á þessum stað, virðulegi forseti.