135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

fangelsi og höfuðstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

412. mál
[14:49]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Spurt er hvaða áform séu uppi um uppbyggingu fangelsis og/eða höfuðstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Brátt er hálf öld liðin síðan áform um nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu voru kynnt án þess að ráðist hafi verið í smíði þess. Allan þennan tíma hefur hegningarhúsið við Skólavörðustíg þjónað upphaflegum tilgangi sínum. Þá hefur svonefnt kvennafangelsi komið til sögunnar í Kópavogi og um nokkurt árabil var rekið fangelsi við Síðumúla.

Þegar ég tók við embætti dóms- og kirkjumálaráðherra vorið 2003 lágu fyrir hugmyndir um stórt og rammgert öryggisfangelsi á Hólmsheiði í landi Reykjavíkur. Eftir að Valtýr Sigurðsson varð fangelsismálastjóri fól ég honum að fara yfir byggingarmál fangelsa í heild og var langtímaáætlun um það efni lögð fram í september 2005. Hefur verið unnið eftir henni síðan. Fangelsið að Kvíabryggju hefur verið endurnýjað og stækkað. Sömu sögu er að segja um fangelsi á Akureyri og næstar á döfinni eru framkvæmdir á Litla-Hrauni.

Hugmyndir mínar um fangelsi á höfuðborgarsvæðinu hafa þróast á þann veg á þessum árum að ég tel æskilegast að huga að því að tengja saman gæsluvarðhalds- og skammvistunarfangelsi og nýja lögreglustöð á þessu svæði. Jafnframt verði ráðist í meiri uppbyggingu á Litla-Hrauni en ráðgert hefur verið og þar verði áfram rammgerðasta og stærsta fangelsi landsins. Ég tel að þessi stefna sé mun líklegri til að skila árangri en að haldið sé fast í öryggisfangelsi á höfuðborgarsvæðinu.

Vegna umræðna um flugvöll eða aðra starfsemi á Hólmsheiði er auk þess ljóst að lóð þar sem nefnd hefur verið undir fangelsi er ekki lengur sömu kostum búin og talið hefur verið ef hún er á annað borð til ráðstöfunar í þessu skyni. Æskilegast er að mínu mati að ríkissjóður selji lögreglustöðina við Hlemm og andvirðið verði nýtt til að reisa nýjar höfuðstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu ásamt viðunandi aðstöðu til að hýsa fanga til skamms tíma. Til að fylgja þessum málum eftir hef ég skipað nefnd til að vinna að frekari uppbyggingu á Litla-Hrauni auk þess að undirbúa nýtt gæsluvarðhalds- og skammtímavistunarfangelsi í tengslum við nýja lögreglustöð á höfuðborgarsvæðinu. Áætlað er að uppbygging á Litla-Hrauni hefjist nú í ár og af fullum krafti árin 2009 og 2010. Samhliða verður unnið að töku ákvarðana um gerð nýrra mannvirkja réttarvörslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þá er spurt hvort áætlað sé að nýta tilboð bæjarráðs Hafnarfjarðar um lóð í Hellnahrauni undir þessi mannvirki. Ég tel að skoða eigi fleiri kosti áður en ákvörðun um stað er tekin.