135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

framfærslugrunnur Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

366. mál
[15:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna voru eitt af forgangsverkefnum síðustu ríkisstjórnar, þ.e. að bæta kjör námsmanna að því leyti til að lækka endurgreiðslubyrði námslána.

Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók til starfa árið 1995 var endurgreiðslubyrði árlega af námslánum um 7% en í dag er hún um 3,75% sem þýðir að kjör þeirra sem lokið hafa háskólanámi hafa batnað allverulega. Há endurgreiðslubyrði íþyngdi verulega mörgum þeirra sem voru að koma sér upp heimili og fjölskyldu eftir langt háskólanám.

Í aðdraganda síðustu kosninga voru málefni stúdenta eða íslenskra námsmanna í háskólum mjög til umræðu og allir stjórnmálaflokkar lögðu mikla áherslu á málefni námsmanna. Mikið var rætt um svokallaðan framfærslugrunn sem er viðmiðun hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna við lánveitingar úr sjóðnum.

Það var loforð margra stjórnmálaflokka að farið yrði í endurskoðun á framfærslugrunninum enda má segja að mörg viðmið í honum séu barn síns tíma. Við getum tekið sem dæmi þróun á húsnæðismarkaði, leiga hefur stórhækkað á þeim markaði. Viðmiðin í framfærslugrunninum hvað húsnæðismál varðar eru því ekki raunhæf í dag, ég held að flestir séu sammála um það. Þarf þá líka að horfa til þess að um 700 stúdentar eru á biðlista eftir íbúðum á stúdentagörðum við Háskóla Íslands og að sjálfsögðu þarf sá stóri hópur fólks, alla vega hluti hans, að leita út á hinn almenna húsnæðismarkað, sem segir okkur að gríðarlega háir fjármunir fara í það hjá námsmönnum að borga húsnæðiskostnað. Einnig má telja upp fleiri hluti í framfærslugrunninum í ljósi þess að verðlag hefur hækkað mjög mikið á mörgum sviðum á undanförnum árum.

Ég tel því mjög brýnt að endurskoða þennan framfærslugrunn og spyr hæstv. ráðherra: Hvað líður endurskoðun á framfærslugrunni Lánasjóðs íslenskra námsmanna?