135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

framfærslugrunnur Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

366. mál
[15:11]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr:

„Hvað líður endurskoðun á framfærslugrunni Lánasjóðs íslenskra námsmanna?“

Úthlutunarreglur lánasjóðsins gilda fyrir eitt ár í senn og eru því endurskoðaðar árlega af stjórn sjóðsins. Endurskoðun á núverandi framfærslugrunni LÍN lauk í maí 2007 og skilaði þá sérstök framfærslunefnd tillögum sem byggt er á í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2007–2008. Þetta er allt saman hefðbundið.

Framfærslugrunnur LÍN hækkaði þá um 4,9% milli ára samhliða því að samþykkt var að taka eingöngu mið af tekjum lánþega í fullu námi. Áður var einnig miðað við tekjur þeirra sem voru aðeins hálft ár á lánum. Viðmiðunarforsendur eru þannig áreiðanlegri en áður sem aftur treystir afkomutryggingu sem grunnurinn á að vera fyrir námsmenn.

Helstu breytingar á reglunum voru eftirfarandi — ég tel mikilvægt að fara aðeins yfir þetta þannig að menn sjái samhengi hlutanna. Í fyrsta lagi hækkaði grunnframfærslan þá um 7,6% eða úr 87.400 kr. í 94.000 kr. á mánuði og lán vegna maka og barna hækkaði samsvarandi. Skerðingarhlutfallið vegna tekna lækkaði úr 12% í 10%. Til viðbótar framfærsluláni eiga lánþegar í sérnámi og grunnháskólanámi erlendis nú árlega kost á allt að 670.000 kr. skólagjaldaláni en fjárhæðin er háð útreikningsmynt og er í reglunum ákvörðuð sem einn fimmti af samanlögðu svonefndu hámarksláni.

Frá og með skólaárinu 2008–2009 hækkar síðan þessi fjárhæð og sömu reglur munu að öllu leyti gilda um skólagjaldanám á Íslandi og í öðrum löndum. Þetta, frú forseti, er að mínu mati afar mikilvæg og merkileg breyting á reglum lánasjóðsins og er algjörlega í samhengi við þær breytingar sem við höfum staðið fyrir á skólakerfinu eða háskólastiginu á undanförnum árum þar sem við erum að undirstrika að við viljum ekki stjórna því hvert nemendur sækja sitt nám, grunnnámið í þessu tilviki. Við erum að segja að íslenskir háskólar eru ekki bara í samkeppni innbyrðis, þeir eru líka í samkeppni við erlenda skóla. Því var bæði sjálfsagt og eðlilegt af hálfu stjórnar LÍN að leggja fram þá tillögu að sjóðurinn láni námsmanni sama í hvaða skóla hann sækir nám. Ég tel þetta því mjög mikilvæga breytingu og merkilega en að sjálfsögðu fylgja henni útlát. Þeir nemendur sem vilja stunda grunnnám í ríki þar sem skólagjöld eru tekin, eins og í bandarískum og breskum háskólum, áttu ekki kost á lánum væri sambærilegt nám kennt hér á landi en þetta er nú breytt.

Á fundi stjórnar LÍN 9. nóvember sl. var skipuð nefnd fjögurra stjórnarmanna til að gera tillögur að nýjum námsframvindureglum, samanber II. kafla úthlutunarregla sjóðsins. Með því að einfalda og auka sveigjanleika reglnanna er ætlunin að kerfið verði gert gagnsærra og skilvirkara en nú er. Stefnt er að innleiðingu nýs kerfis frá og með skólaárinu 2008–2009 og nefndin hefur þegar haldið sex fundi og hefur starf hennar gengið samkvæmt áætlun. Það var síðan ákveðið á fundi stjórnar LÍN 1. febrúar sl. að hefja almenna vinnu við endurskoðun á úthlutunarreglum sjóðsins en einn veigamesti þátturinn í þeirri vinnu er að sjálfsögðu endurskoðun á framfærslugrunni sjóðsins.

Lánasjóður íslenskra námsmanna gegnir, eins og við þekkjum öll, algeru lykilhlutverki í íslensku skólakerfi og er með öflugasta alhliða stuðningskerfi við nemendur sem fyrirfinnst, það hef ég séð m.a. á skýrslum frá OECD. Við höfum á síðustu árum tekið mörg og mikilvæg skref í því sambandi að gera stuðning hans við íslenska nemendur enn skilvirkari og öflugri. Vil ég þar sérstaklega nefna þá ákvörðun sem tekin var á síðasta kjörtímabili að lækka endurgreiðsluhlutfall námslána úr 4,75 í 3,75%, eins og hv. þingmaður kom inn á, sem veitir ungu fólki sem kemur úr háskólanámi inn á vinnumarkaðinn meiri sveigjanleika með þær tekjur sem það aflar sér.

Þessar breytingar hefðu að sjálfsögðu, frú forseti, ekki verið mögulegar nema í ljósi mjög sterkrar stöðu lánasjóðsins og leyfi ég mér að fullyrða að hann hafi aldrei áður gegnt hlutverki sínu með jafnöflugum hætti og nú. Ekki er þar með sagt að látið verði staðar numið. Við höldum að sjálfsögðu áfram að endurskoða reglurnar annars vegar með það að leiðarljósi að veita ungu fólki áfram tækifæri til að velja sér það nám sem það kýs að fara í og hins vegar að halda áfram að byggja hér upp öflugt háskólakerfi. Við höfum svo sannarlega gert það á síðustu árum. Við þurfum að hafa öflugan lánasjóð, við höfum styrkt hann á síðustu árum og ætlum að halda áfram að gera það.