135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

framfærslugrunnur Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

366. mál
[15:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin og fagna því sérstaklega að nú sé hafin heildarendurskoðun á framfærslugrunni LÍN. Þetta eru málefni sem mikið hafa verið í umræðunni að undanförnu. Í raun og veru er framfærslugrunnur LÍN kjarasamningar námsmanna við háskóla landsins. Það skiptir miklu máli upp á framfærslu námsmanna hér á landi að þessi grunnur sé efnislega réttur og í samræmi við veruleikann og því fagna ég því sérstaklega að þessi heildarendurskoðun sé hafin. Ég er á því, af því að ég þekki marga sem stunda nám við háskóla landsins, að kjör margra námsmanna séu svo sem ekkert allt of góð og það má bæta margt í því. Ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli hafa kveðið á um að styrkja eigi Lánasjóð ísl. námsmanna enn meir en gert hefur verið á undanförnum árum. En rétt eins og ráðherrann hefur bent á, hefur sjóðurinn verið undir mjög góðri stjórn og er mjög styrkur enda þekki ég stjórnarformann sjóðsins að góðu einu. Ég veit að hann hefur stýrt því með harðri hendi með ágætum árangri en ég tel að það þurfi að bæta enn frekar kjör námsmanna líkt og síðasta ríkisstjórn gerði öll þrjú kjörtímabilin sem hún var við völd.

Ég vil líka benda hæstv. ráðherra á frumvarp sem er hér til umfjöllunar í þingnefndum sem kveður á um að þriðjungur námslána breytist í styrk ljúki námsmaður námi á tilsettum tíma. Þetta er frumvarp sem við framsóknarmenn höfum lagt fram og nýtur gríðarlega mikils fylgis hjá stúdentum hér á landi sem og hjá flestum (Gripið fram í.) stjórnmálaflokkum. Því miður liggur ekki alveg fyrir afstaða Sjálfstæðisflokksins í þeim efnum en þar er um mjög mikið hagsmunamál að ræða fyrir háskólanema og mundi auka líka skilvirkni á háskólastiginu í rekstri skólanna.