135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

ókeypis námsbækur í framhaldsskólum.

367. mál
[15:20]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Kostnaður framhaldsskólanema við námsbækur í námi sínu er allmikill og veltur á tugum þúsunda á hverri önn sem nemendur verða að borga fyrir námsgögn sín. Það er ekki svo langt síðan ég var í framhaldsskóla, eins og á mér má sjá, og ég man að þessi kostnaður var allverulegur. Það fór alveg hrikalega í taugarnar á mér hversu ör skipti voru á námsgögnum í framhaldsskólanum þannig að það var ekki einu sinni hægt að koma í verð mörgum af þeim bókum að loknu námi sem hefði verið vel þegið á þeim árum enda fjárhagur margra framhaldsskólanema bágborinn eins og við þekkjum öll.

Í ljósi þess mikla kostnaðar var það mikið fagnaðarefni fyrir marga framhaldsskólanemendur þegar Samfylkingin lofaði því að námsgögn í framhaldsskólum landsins yrðu ókeypis. Ég veit til þess að mjög margt ungt fólk í framhaldsskólum landsins greiddi Samfylkingunni atkvæði sitt í þeirri trú að námsgögn og námsbækur í framhaldsskólum yrðu ókeypis. Reyndar gekk það svo langt í skólabænum Akureyri að frambjóðendur Samfylkingarinnar gengu þar í skólana með ávísanir og lofuðu nýjum kjósendum þar því að námsbækur yrðu ókeypis ef þeir kæmust til valda. Nú er búið að klára eina fjárlagagerð og ekkert bólar á því að komið verði til móts við framhaldsskólanemendur hvað þennan kostnaðarlið varðar. Þar af leiðandi er m.a. búið að svíkja árganginn sem er að útskrifast núna úr framhaldsskólum landsins um að námsbækur verði ókeypis. Að sjálfsögðu er þetta ekki til þess fallið að auka virðingu stjórnmálamanna þegar menn ganga svona berlega á svig við gefin loforð. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvenær hann hyggist beita sér fyrir því að námsbækur í framhaldsskólum landsins verði ókeypis, rétt eins og Samfylkingin lofaði í aðdraganda síðustu kosninga. Það hefur greinilega ekki verið neitt sérstakt áhersluefni hjá Samfylkingunni að berjast fyrir því í fyrstu fjárlagagerð sinni að standa við þetta loforð gagnvart þeim kjósendum sem eru að kjósa í fyrsta skipti. Ég er þess fullviss, hæstv. forseti, að það unga fólk sem — eigum við að segja — keypti loforð Samfylkingarinnar um ókeypis skólabækur hefur ekki gleymt þeim loforðum Samfylkingarinnar, enda er þetta eitt af þeim málum sem snertir pyngju framhaldsskólanemenda hvað mest. Því hljótum við að spyrja hæstv. ráðherra hvenær hann hyggist beita sér fyrir því að námsbækur í framhaldsskólum verði ókeypis eins og Samfylkingin lofaði svo hátíðlega í aðdraganda síðustu kosninga.