135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

ókeypis námsbækur í framhaldsskólum.

367. mál
[15:23]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn en ég verð þó að segja eins og er að eins miklar mætur og ég hef á þeim unga og hugprúða þingmanni þá hugnast mér ekki sérstaklega þessi málflutningur. Það er örstutt síðan þessi hv. þingmaður, Birkir Jón Jónsson, kom úr samstarfi við okkur sjálfstæðismenn þar sem við hugsuðum þetta í kjörtímabilum. Við hugðumst ekki efna allt strax á fyrsta ári. Ég verð að segja að samstarfsflokkur okkar í ríkisstjórn, Samfylkingin, finnst mér vera að sýna ákveðna ábyrgð. Það verður ekki neitt svikið, bara þannig að það sé sagt hér. Það verður ekkert svikið enda stendur það hreint og klárt í stjórnarsáttmálanum að við ætlum að taka upp stuðning við nemendur í framhaldsskólum til kaupa á námsgögnum. Við þetta verður að sjálfsögðu staðið og það hefur þegar verið lögð nokkur vinna í það í ráðuneytinu að skoða hvernig að slíkum stuðningi verði staðið og honum verður síðan að sjálfsögðu komið og miðlað til nemenda. Þetta er ákveðið úrlausnarefni en það er nokkuð flókið. Við þetta verður þó að sjálfsögðu staðið á kjörtímabilinu.

Þess má einnig geta að í frumvarpi til laga um framhaldsskóla sem nú er til meðferðar á Alþingi er í 51. gr. gert ráð fyrir að tiltekin fjárhæð verði í fjárlögum til að mæta kostnaði nemenda vegna námsgagna. Þar er gert ráð fyrir að ráðherra setji reglur um skiptingu fjárins og fyrirkomulag þessa stuðnings. Ég legg áherslu á að hér er um að ræða stuðning til kaupa á námsgögnum. Ekki er um að ræða að öll námsgögn verði algerlega ókeypis í framhaldsskólum eins og kemur skýrt fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Markmið þessara aðgerða verður að sjálfsögðu að gera framhaldsskólanemendum auðveldara að stunda nám í framhaldsskóla og það er rétt. Það er mikill kostnaður sem felst í bókakaupum og námsgagnakaupum hjá framhaldsskólanemum og við ætlum að auðvelda framhaldsskólanemum lífið á þeim vettvangi.

Fyrir liggur að í fjárlögum yfirstandandi árs, þ.e. 2008, er ekki gert ráð fyrir framlagi til málsins en líkt og ég gat um áðan er unnið að því í ráðuneytinu að útfæra framkvæmd þessa stefnumiðs og þá með þeim hætti að stuðningur til kaupa á námsgögnum nýtist nemendunum sem best. Hér er að sjálfsögðu að mörgu að huga og ljóst er að fara verður aðra leið en gert er varðandi námsgögn til nemenda í grunnskólum. Hér eftir sem hingað til verður val á námsgögnum í höndum einstakra kennara og þetta er algerlega í samræmi við það sem við erum að boða í framhaldsskólunum. Við segjum: Frelsið, sjálfstæðið og mótun námsframboðs verða í höndum skólanna, kennara og nemenda og það á að sjálfsögðu einnig að vera varðandi mat kennara og skóla á námsgögnum. Það er ekki stefnt að því að taka upp miðstýrðar ákvarðanir um námsgögn og námsgagnaframleiðslu líkt og raunin er í grunnskólum þótt við höfum náð á síðasta kjörtímabili aðeins að opna mikilvæga glufu á þeim vettvangi.

Að sama skapi og ég vil undirstrika þetta, frú forseti, að mikilvægt er að ekki verði byggt upp umfangsmikið og dýrt umsýslukerfi sem tekur til sín stóran hluta þeirra fjármuna sem varið verður í þennan stuðning. Við vitum að námsgagnakostnaður getur verið nemendum mjög íþyngjandi og ég bind miklar vonir við að með væntanlegum aðgerðum verði tekið mikilvægt skref til að efla enn frekar framhaldsskólana og möguleika barnanna okkar til náms.