135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

ókeypis námsbækur í framhaldsskólum.

367. mál
[15:28]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Gagnstætt því sem hér hefur komið fram vil ég fagna þessari fyrirspurn sérstaklega vegna þess að hv. þm. Birkir Jón Jónsson ítrekar og vekur athygli á stefnumálum Samfylkingarinnar og þeim miklu framfaramálum sem við höfum lagt áherslu á. Ég hlýt að taka heils hugar undir að það skiptir okkur máli að þeim sé fylgt eftir. Ég get fullvissað hann um að ef hann les stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þá sér hann að menntamálin skipa þar háan sess og hæstv. menntamálaráðherra hefur með ágætum gert grein fyrir því með hvaða hætti á að koma að þeim málum sem hér er spurt um.

Til umfjöllunar eru frumvörpin um menntamál í menntamálanefnd og þar er einmitt kafli í framhaldsskólafrumvarpinu um námsgögn. Það er okkar að fylgja því eftir að lausnir verði viðunandi í sambandi við kostnað á námsgögnum í framhaldsskólum og ég mun fylgja því fast eftir. Ég veit að stuðningur verður frá ríkisvaldi eða stjórnarflokkunum við það mál.