135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

ókeypis námsbækur í framhaldsskólum.

367. mál
[15:30]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þau svör svo langt sem þau náðu sem og þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu. Mér finnst hæstv. ráðherra vera dálítið hugrökk að tala um að engin svik hafi átt sér stað í þessu máli. Ég fullvissa hv. þingmenn um að þeir framhaldsskólanemendur sem eru að útskrifast úr framhaldsskólanámi í dag stóðu í þeirri trú að skólabækur yrðu fríar ef Samfylkingin kæmist í ríkisstjórn. Því finnst mér það allmikil hugprýði af hæstv. ráðherra, varaformanni Sjálfstæðisflokksins, að bera blak af Samfylkingunni í þessari umræðu. Eftir að Samfylkingin er gengin fyrir björg í aðdraganda síðustu kosninga kemur hæstv. ráðherra hingað með skilaboð til þeirra nemenda sem eru að útskrifast úr framhaldsskólum landsins um að ekkert hafi verið svikið í þessu máli.

Að sjálfsögðu ber hæstv. ráðherra ekki ábyrgð á því ábyrgðarleysi sem viðgekkst hjá Samfylkingunni í aðdraganda síðustu kosninga, en það er kannski einkennandi fyrir stjórnarsamstarfið að horfa upp á Sjálfstæðisflokkinn nánast ganga fyrir björg málefnalega með því að segja að engin svik hafi verið í þessu máli.

Samfylkingin gekk einfaldlega svo langt að segja að námsbækur yrðu ókeypis í framhaldsskólum landsins kæmist hún til valda. Síðan kemur hæstv. ráðherra og segir að námsbækurnar verði ekki einu sinni ókeypis á kjörtímabilinu, heldur verði komið til móts við þann kostnað sem framhaldsskólanemar bera vegna þessa.

Þetta hlýtur að sýna það, hæstv. forseti, að Samfylkingin virðist hafa Sjálfstæðisflokkinn algjörlega í vasanum í þessu ríkisstjórnarsamstarfi þegar hæstv. ráðherra er reiðubúin að verja Samfylkinguna með þann vonda málstað sem Samfylkingin hefur í þessu máli því að hún lofaði allt of miklu í þessu miðað við þau fjárlög sem við lesum út úr hér.