135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

einkavæðing Iðnskólans í Reykjavík.

[15:44]
Hlusta

Huld Aðalbjarnardóttir (F):

Frú forseti. Þann 29. febrúar sl. var undirritaður samningur við Menntafélagið um yfirtöku á rekstri Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskóla Íslands. Markmiðið með sameiningu þessara tveggja skóla er göfugt og gott. Efla á iðn- og starfsmenntun í landinu, gera hana eftirsóknarverðari og efla ábyrgð og áhrif atvinnulífsins á þróun þessarar menntunar.

Ég er viss um að hér er spennandi verkefni í gangi. Vonandi skilar það okkur góðum árangri á þessu sviði, ekki veitir af, þar sem iðn- og starfsmenntun hefur ekki fengið næga áherslu innan skólakerfisins síðustu árin.

Þó er það tvennt sem kemur upp í hugann í fljótu bragði við þessa umræðu, annars vegar er það aðkoma fagfólksins innan skólanna að þessari sameiningu, ekki síst kennaranna. Þeir virðast ekki hafa verið hafðir með í ráðum miðað við yfirlýsingu kennara sem eru ósáttir við vinnubrögðin við sameininguna. Sé þetta rétt virðist mér afar illa farið með alla þá þekkingu og þann mannauð sem fyrir hendi er innan skólanna í staðinn fyrir að virkja starfsmenn með og fá þannig víðtæka sátt um málið.

Hins vegar velti ég fyrir mér samkeppnisstöðu annarra starfs- og verkmenntaskóla í landinu samanborið við þennan nýja öfluga skóla, hvort sama reiknilíkanið verði notað og þar með sömu forsendur til að reikna út úthlutað fjármagn frá ríkinu til þessa ágæta skóla og annarra sambærilegra ríkisrekinna skóla. Verður það fé sem Menntafélagið leggur til skólans viðbót við skólann og skekkir þar með samkeppnisstöðu ríkisrekinna skóla? Ef svo er finnst mér þessi einkarekstursstefna í skólakerfinu afar sérkennileg og ósanngjörn á kostnað ríkisrekinna skóla.

Að lokum óska ég þessum nýstofnaða skóla velfarnaðar. Ég vænti mikils af honum.