135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

einkavæðing Iðnskólans í Reykjavík.

[15:51]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að taka upp þessa umræðu. Í máli hennar kom fram hvernig þetta mál allt saman hefur verið unnið á handarbakinu. Uppi eru lagaleg álitamál og margvísleg álitamál varðandi framkvæmdina. (Gripið fram í.) Aðalfundur félags kennara við skólann vill að málið fari til úrskurðar hjá umboðsmanni Alþingis. Síðan kemur hæstv. menntamálaráðherra og þakkar fyrir umræðuna á þinginu, fyrir tækifæri til að fá að taka málið upp. Hvers vegna í ósköpunum var málið ekki rætt til hlítar á þinginu og greitt úr öllum þeim flækjum sem eru enn til staðar í þessu máli áður en anað var út í fenið? Ég sakna þess við þessa umræðu að heyra einhverjar röksemdir. Hvers vegna í ósköpunum er verið að taka stofnanir sem skattgreiðendur borga fyrir undan þeim lögum og reglum sem smíðuð hafa verið á undanförnum áratugum til að tryggja annars vegar hagsmuni skattborgarans og hins vegar hagsmuni þess fólks sem við þessar stofnanir vinnur?

Síðan er það Samfylkingin, vesalings Samfylkingin. Nú er hún byrjuð að taka upp sama sönginn og íhaldið, einkavæðingarráðherrar Sjálfstæðisflokksins, hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. menntamálaráðherra. Ég vil spyrja fulltrúa Samfylkingarinnar við þessa umræðu: Er það kannski líka bara einkarekstur og engin einkavæðing þegar heil deild, öldrunardeild á Landakoti, er boðin út í raðauglýsingum Morgunblaðsins? Það er væntanlega ekki einkavæðing, en starfsfólkinu finnst það vera það. (Gripið fram í.) Þetta er kannski fráhvarf frá fyrri stefnu Samfylkingarinnar að þegja í þessum málum, kannski ætlar hún að fara að tala og taka betur undir með íhaldinu. Fram til þessa hefur verið talað um hana í þessum málum sem hinn þögla félaga í ríkisstjórninni, „the silent partner“ sem Bretar kalla, sá aðili sem samþykkir allt með þögn sinni. (Forseti hringir.) Það er ömurlegt hlutskipti fyrir stjórnmálaflokk sem kennir sig við jafnaðarstefnu.