135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

einkavæðing Iðnskólans í Reykjavík.

[16:00]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða um samning sem hæstv. menntamálaráðherra undirritaði þann 29. febrúar við Menntafélagið ehf. Það er fróðlegt að fylgjast með því hvernig samfylkingarmenn engjast hér í spurningunni um það hvort um einkavæðingu sé að ræða eða ekki. (Gripið fram í.) Í sjálfu sér skiptir það engu máli og er náttúrlega í samræmi við þau umræðustjórnmál sem hv. formaður Samfylkingarinnar hefur staðið fyrir, og allt í lagi með það. En að sjálfsögðu er hér um einkavæðingu og einkarekstur að ræða, samningurinn lýtur þeim lögmálum. Þá er það spurningin: Er það í lagi eða er það ekki í lagi?

Út frá mínum sjónarmiðum er það allt í lagi. Það er ósköp eðlilegt að hv. málshefjandi, Kolbrún Halldórsdóttir, sé annarrar skoðunar og þeir sem standa með henni í flokki. Ég tel hins vegar að í þessum samningi kunni að felast ákveðnir möguleikar, við eigum ekki að líta á það sem verið er að gera sem algjörlega neikvætt. Um langa hríð hefur verið til staðar vandi tengdur iðn- og starfsnámi hér á landi. Ekki hefur verið borin nægileg virðing fyrir iðn- og starfsnámi og ekki hefur verið nægileg sókn í slíkt nám á undanförnum árum. Það hefur verið vandamál í íslensku þjóðfélagi, og verður hugsanlega vandamál til framtíðar, að við höfum ekki nægjanlega mörgum hæfum handverksmönnum á að skipa.

Við skulum ekki gleyma einu: Evrópa varð rík álfa, ekki vegna þess að hún ætti svo mikið af andans mönnum, lögfræðingum, læknum eða prestum — þó að þeir séu allra góðra gjalda verðir, sérstaklega lögfræðingarnir. Evrópa varð rík álfa vegna þess að hún átti vel menntað vinnuafl, handverksmenn. Það gerði útslagið og að því verður að gæta að iðn- og starfsnámi á Íslandi og umbúnaði þess sé sýnd nægileg virðing.