135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

einkavæðing Iðnskólans í Reykjavík.

[16:02]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ekki óeðlilegt að talsverður hiti sé í þessari umræðu því að hér er um afar stórt mál að ræða. Ég er mikill stuðningsmaður öflugs iðnnáms á Íslandi en ég er líka mikill talsmaður þess að við stórar ákvarðanir af þessu tagi fái það fólk sem starfar á vettvangi að koma að. Ekki hefur verið haft samráð við starfsfólk Iðnskólans eða nemendur, í þessu máli hefur verið stjórnað ofan frá og niður.

Fyrir ári ræddum við þetta sama mál á Alþingi Íslendinga, vorum með utandagskrárumræðu sem ég bað um þann 13. mars sl. Þá sagði hæstv. menntamálaráðherra að margt ætti eftir að leiða til lykta áður en þessi ákvörðun yrði tekin. Það leið tæp vika frá því að kennarafélagið í Iðnskólanum bað um fund í ráðuneytinu til að ræða þessi mál þar til búið var að undirrita samninginn.

Ég segi því í fullum rétti: Hvers lags vinnubrögð eru þetta? Þetta eru alla vega ekki vinnubrögð til að laða fram það besta í hugmyndum fólks sem veit um hvað málin snúast, nemendur og starfsfólk Iðnskólans í Reykjavík. Ég segi því: Hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki farið að þessu máli með þeim hætti sem t.d. þingmenn Samfylkingarinnar gerðu kröfu um að gert yrði. Ég get vitnað til orða Marðar Árnasonar og Katrínar Júlíusdóttur í þeim efnum en þau tóku til máls í umræðunni. Við hv. þingmenn Samfylkingarinnar, sem tekið hafa þátt í þessari umræðu, get ég sagt: Margt dapurlegt hefur gerst í herbúðum Samfylkingarinnar á þessu ári og ekki hefur verið farið að þeim kröfum sem menn settu fram fyrir ári.

Hæstv. forseti. Ég vona að barninu hafi ekki verið hent með baðvatninu. Ég kvarta undan samráðsleysi — samningurinn virðist ekki vera aðgengilegur á heimasíðu ráðuneytisins heldur einungis fréttatilkynning og yfirlýsing um orðinn hlut — (Forseti hringir.) og ég harma að Alþingi Íslendinga og menntamálanefnd skyldi ekki hafa fengið að koma að þessu máli.