135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

áhættumat vegna siglinga olíuflutningaskipa í íslenskri efnahagslögsögu.

358. mál
[18:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Á umræðufundi Stofnunar Sæmundar fróða og Umhverfisstofnunar í lok janúar sl. kom fram að frá árinu 2004 hafa olíuflutningaskip siglt um íslenska efnahagslögsögu á leið sinni frá Rússlandi til Norður-Ameríku. Á árinu 2007 fóru 212 olíuflutningaskip frá Murmansk vestur um haf með ríflega tvær milljónir lesta af olíu og 22% þessa flota eða 47 skip fóru á síðasta ári um íslenska efnahagslögsögu, 12% skipanna voru 100 þús. tonn að stærð eða meira en stærsti hlutinn var 25–75 þús. tonn að stærð.

Frú forseti. Þetta eru bæði góðar fréttir og slæmar. Góðar fréttir vegna þess að hér er um talsvert færri skip að ræða en oft hefur verið talað um og vegna þess að þau eru minni en talið hefur verið. Slæmar eru fréttirnar vegna þess að þetta eru skip sem sigla utan venjulegra viðbragðs- og áhættusvæða hér á landi, þau sigla um mjög viðkvæm svæði, um uppeldisstöðvar nytjafiska og hjá lífríkum strandsvæðum. Jafnframt eru siglingaleiðir þeirra háskalegar, einkum úti fyrir Norðvesturlandi. Framhjásiglingar af þessu tagi fara um alþjóðleg hafsvæði þar sem íslensk lög gilda ekki. Til að takmarka þær eða stýra þeim þarf því að grípa til tiltekinna ráðstafana, fá samþykktar sérstakar takmarkanir eins og gert hefur verið við suðvesturströnd Íslands. Slíkar takmarkanir eru byggðar á áhættumati sem m.a. tekur tillit til umferðarþunga, stærðar skipa og annars sem gera þarf og einnig möguleika til að afstýra slysi eða draga úr afleiðingum þess. Ég hef því spurt hæstv. umhverfisráðherra hvað líði gerð áhættumats og viðbragðsáætlunar vegna þessara siglinga.

Frú forseti. Þó að olíuflutningar um efnahagslögsöguna valdi vissulega áhyggjum eru olíuslys af því tagi þó barnaleikur á við það sem gæti gerst ef slys yrði við flutning á hráolíu til landsins en hráolía eyðist ekki í sjó eða á landi. Eina leiðin til að losna við hana úr lífríkinu á köldum svæðum er að moka henni upp með handafli og afleiðingarnar eru hörmulegar. Upplýst er að fjórða hvern dag mundi 100 þús. tonna skip lesta hráolíu til olíuhreinsistöðvar sem einhverjir hafa áhuga á — þar á meðal hæstv. sjávarútvegsráðherra — að reisa á Vestfjörðum. Þau skip mundu sigla þvert fyrir lífauðuga firði og flóa svo nærri landi að viðbragðstími yrði ákaflega lítill ef eitthvað bæri út af. Í mínum huga er því þörf á allt annars konar hættumati og viðbúnaði vegna flutninga til olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum en vegna flutninga á hreinsaðri olíu um efnahagslögsöguna.

Því spyr ég hæstv. ráðherra hvaða áhrif olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum mundi hafa á gerð slíks áhættumats.