135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

áhættumat vegna siglinga olíuflutningaskipa í íslenskri efnahagslögsögu.

358. mál
[18:10]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er áleitin spurning sem hv. fyrirspyrjandi hreyfir hér sem veltir auðvitað upp þessum tilfinningum manns varðandi áform, þau glæfralegu áform, vil ég segja, um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Ég vil fagna svari hæstv. umhverfisráðherra sem segir að hún vilji beita sér fyrir því að sá vandi sem hér um ræðir, aukin umferð olíuskipa um hafsvæðið í kringum Ísland, verði leystur eða ræddur á vettvangi umhverfisráðuneytis og samgönguráðuneytis sameiginlega. Við vitum um þau sjónarmið sem hæstv. samgönguráðherra hefur látið í ljósi varðandi olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum og þau skelfa mann. Maður er óneitanlega hræddur um að hæstv. umhverfisráðherra og sjónarmið hennar í þessum efnum gætu þá orðið að lúta í lægra haldi.

Varnir gegn mengun hafs og stranda eru á ábyrgð okkar hér á Alþingi Íslendinga og ég hvet til þess að við tölum af alvöru (Forseti hringir.) um áformin um olíuhreinsunarstöðina en látum ekki lengur eins og hugmyndin sé svo vitlaus að aldrei verði af henni.