135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

áhættumat vegna siglinga olíuflutningaskipa í íslenskri efnahagslögsögu.

358. mál
[18:11]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. umhverfisráðherra kærlega fyrir þessi svör. Ég neita því þó ekki að þau ollu mér nokkrum vonbrigðum. Ég sé ekki betur af svörunum en að ekki sé hafin gerð viðbragðsáætlunar vegna þessara olíuflutninga. Mér heyrðist hæstv. ráðherra vísa í þær viðbragðsáætlanir og það áhættumat sem gert hefur verið og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til á þeim áhættusvæðum sem skilgreind hafa verið við landið en þau eru öll fyrir sunnan og suðvestan land þar sem skipin koma upp að landinu til þess að koma með vörur og olíuvörur hér inn til hafna. Ég vek athygli á því að þó að þessi olíuflutningaskip séu fá núna munu þau í samræmi við áætlanir Rússa fljótlega verða 300–400, það er þeirra áætlun um 2015.

Hvað er hægt að gera? Ég vil hvetja ráðherrann til að láta nú strax fara að vinna viðbúnaðaráætlun í þessu skyni. Þar er hægt að afmarka siglingaleiðirnar og ég fagna því að það verði gert í samvinnu við samgönguráðuneytið. Einnig er hægt að loka viðkvæmum hafsvæðum sem eru skilgreind sem slík og það væri á verksviði hæstv. ráðherra. Það er líka hægt að takmarka umferð skipa með einfaldan byrðing og huga að nýjum búnaði til að takast á við olíuslys. Allt kostar þetta fé og fyrirhöfn en fyrst og fremst fyrirhyggju og ég verð að segja að ég hlýt að hafa nokkrar áhyggjur af stöðu mála vegna þess að við erum ekki viðbúin, ég tala nú ekki um ef menn ætla svo að fara að bæta olíuhreinsunarstöð ofan í kaupið (Forseti hringir.) og 100 þús. tonnum af hráolíu meðfram ströndum landsins fjórða hvern dag.