135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

áhættumat vegna siglinga olíuflutningaskipa í íslenskri efnahagslögsögu.

358. mál
[18:13]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að ef hugmyndir manna um að reisa olíuhreinsunarstöð einhvers staðar á Íslandi yrðu að veruleika er í mínum huga ljóst að það yrði ekki gert nema fram hefði farið áhættumat á siglingum olíuskipanna og því sem því fylgir. Það er alveg rétt, sem hv. fyrirspyrjandi bendir á, að ef flytja á aðföng til olíuhreinsunarstöðvar er verið að flytja þangað þrávirka hráolíu og ekkert er verra fyrir umhverfið á norðlægum slóðum, ég tek fyllilega undir það með hv. fyrirspyrjanda.

Ég vildi bæta við svar mitt frá því áðan að ég er að láta skoða möguleika á að taka þátt í norrænu verkefni, samstarfsverkefni, sem varðar áhættumat á öllum siglingaleiðum á Norðurhöfum. Þetta mundi vonandi ná til þessara siglingaleiða austur, norður og vestur fyrir landið. Það er hins vegar ekki komið í ljós á þessari stundu. Ég held að það væri mjög heppilegt að gera slíkt áhættumat og slíka könnun í samstarfi við þjóðir sem eru að vinna svipað starf og hafa af því líka mikla reynslu, eins og t.d. Norðmenn. Við getum einungis grætt á því og samnýtt okkur þá vinnu. Vissulega þarf að vinna viðbúnaðaráætlun og samvinna þarf að vera á milli samgönguráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Það er eins og svo margt annað í umhverfismálunum að þau ganga þvert á öll ráðuneyti og flesta málaflokka. Ef að því kemur að hugmyndir manna um olíuhreinsunarstöð verða að veruleika (Forseti hringir.) hlýtur slíkt að þurfa að liggja fyrir.