135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

losun kjölfestuvatns.

424. mál
[18:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Lengi hefur tíðkast að auka stöðugleika lítt lestaðra skipa á siglingu á úthafinu með því að þyngja kjölinn. Áður fyrr var algengt að nota grjót til þeirra hluta en nú á tímum eru skip hönnuð með tanka þar sem sjórinn gegnir hlutverki kjölfestunnar. Er þá sjó dælt inn í tankana eða úr þeim og þannig stýrt magni kjölfestunnar í samræmi við hleðslu skipsins. Því fylgir hins vegar að lífverur dreifast milli hafsvæða og það hefur verið metin sem ein af fjórum helstu ógnunum við lífríki hafsins. Samkvæmt upplýsingum sem finna má á vef Umhverfisstofnunar er talið að árlegur flutningur kjölfestuvatns um heimsins höf geti numið um 10 þúsund milljónum tonna og að á hverjum degi séu fluttar um 3 þúsund tegundir lífvera í kjölfestuvatninu. Hættan sú að lífverur berist til nýrra heimkynna og hafi alvarleg áhrif á vistkerfi svæðisins. Þekkt eru nokkur dæmi um mjög alvarleg umhverfisspjöll. Eitt versta dæmið er af völdum amerísku kambhveljunnar sem er marglyttutegund. Hún étur dýrasvif sem er mikilvæg undirstaða fæðukeðjunnar og eyðir því. Hún er talin eiga stóran þátt í hruni fiskstofna í Eystrasalti árið 1990.

Einnig geta sjúkdómar borist í villta laxastofna á þennan hátt og er dæmi um slíkt í Færeyjum. Áríðandi er að könnuð verði staða þessara mála hér á landi enda miklir hagsmunir í húfi þar sem m.a. eru fiskstofnarnir við landið. Vita þarf hvort, hvar og í hve miklu magni kjölfestuvatn er flutt til landsins og losað hér og þá hvaðan þau skip koma. Til að hreyfa þessu máli hef ég leyft mér að flytja fyrirspurn í tveimur liðum til hæstv. umhverfisráðherra um losun kjölfestuvatns. Fyrirspurnin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

1. Hvaða athugun hefur farið fram á því hvort eða hversu mikið er um að skip losi kjölfestuvatn á íslensku hafsvæði?

2. Hvenær hyggst ráðherra staðfesta alþjóðlegan samning um aðgerðir í því skyni að draga úr óæskilegum áhrifum kjölfestuvatns og hvers vegna hefur staðfestingin dregist?