135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

áhrif af samdrætti í þorskveiðum.

423. mál
[18:29]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessar spurningar.

Varðandi fyrstu spurninguna vil ég segja þetta: Þegar síðasta stofnmat fyrir þorsk var gefið út síðastliðið vor lá fyrir fyrsta mat á árgangi 2006. Árgangur 2006 hefur fyrst áhrif á aflamark fyrir fiskveiðiárið 2010/2011. Þar af leiðandi er óhægt um vik að gera framreikninga lengra en til ársins 2011. Meðalþyngd þorsks eftir aldri hefur farið lækkandi á undanförnum árum og er nú svipuð eða lægri en hún var þegar loðnustofninn hrundi um 1982. Ég vil taka það fram að í framreikningunum sem ég mun vísa til er gert ráð fyrir áframhaldandi lágri meðalþyngd en auðvitað getur breyting á meðalþyngd haft veruleg áhrif á það sem kemur á eftir og það verða menn að hafa í huga.

Að gefnum þessum forsendum og að gefinni þeirri forsendu jafnframt að við styðjumst við 20% veiðihlutfall en við höfðum áður stuðst við 25% veiðihlutfall, en veiðihlutfallið hefur verið nokkru hærra en það, þá eru um 5% líkur á að afli ársins 2011 nái 190 þúsund tonnum. Í þessu sambandi vil ég þó taka fram eftirfarandi: Í fyrsta lagi er það svo að ef þetta gengur eftir sem hér er verið að stefna að, og það er auðvitað ein af forsendunum sem við erum að vinna út frá á grundvelli þeirra framreikninga sem ég vísaði til, er gert ráð fyrir að hrygningarstofninn sem skiptir mjög miklu máli í þessu sambandi fari úr 182 þúsund tonnum í 290 þúsund tonn árið 2011 eða stækki um 50%. Það er auðvitað heilmikill ávinningur í því. Í annan stað ef við skoðum viðmiðunarstofninn, þ.e. stofninn sem við leggjum til grundvallar þegar við erum að taka ákvörðun um kvótann, fjögra ára fiskur og eldri, var gert ráð fyrir því að hann væri um 650 þúsund tonn í fyrra þegar ákvörðun var tekin um minnkun aflans, það stefndi í að hann yrði á þessu ári 560 þúsund tonn en miðað við þetta verður hann á árinu 2011 orðin 790 þúsund tonn eða stækkar um 20% frá því sem hann var þegar við vorum að taka ákvörðunina.

Ég vil líka vekja athygli á í þessu sambandi að ef við skoðum veiðihlutfallið sem við vorum með þegar við vorum að veiða 193 þúsund tonn var það hlutfall tæp 29%. Ef við notum sama veiðihlutfall og við notuðum þá væri viðmiðunarstofn upp á 790 þúsund tonn að gefa okkur um 230 þúsund tonna afla. Ég tel að af þessu megi sjá að við værum að ná þarna verulegum árangri og það var auðvitað það sem við vorum að stefna að og koma í veg fyrir að stofninn minnkaði. Með þessu erum við að stuðla að því að hann stækki auk þess sem breyting verður á aldurssamsetningu eins og hv. þingmaður rakti.

Hv. þingmaður spyr líka um mat mitt á samþjöppun veiðiheimilda á samdráttartímabilinu. Þetta er matskennt í sjálfu sér, hins vegar hefur ríkisvaldið reynt að stuðla að því að koma í veg fyrir að menn þyrftu að grípa til þess að selja frá sér veiðiheimildir. Það var ákveðið að efla Byggðastofnun í þessu sambandi til að menn gætu fengið skuldbreytingar og frestun á afborgunum af lánum til þess m.a. að stuðla að því að menn væru ekki í þeirri stöðu að þurfa að selja frá sér aflaheimildir. Ég held líka, eins og við höfum séð, að það séu allar líkur á því að menn muni að reyna að hanga á aflaheimildum sínum vegna þess að það er augljóst mál að það er ekki mjög skynsamlegt fyrir þann sem er í þessari stöðu að selja aflaheimildir þegar þær eru í lágmarki, auðvitað reyna menn þá frekar að þreyja þorrann og góuna ef menn sjá að þessi uppbyggingarstefna ber árangur eins og ég var að reyna að færa rök fyrir hér.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður hver ég telji að verði skaði Íslendinga vegna tapaðrar hlutdeildar á erlendum mörkuðum. Ég fer ekki í neinn launkofa með að það er augljóst mál að þegar við getum ekki skaffað afurðir úr 60 þúsund tonnum mun það auðvitað hafa þau áhrif að einhverjir markaðir munu svelta. Menn verða að taka þá ákvörðun núna að sinna einhverjum tilteknum mörkuðum, okkar verðmætustu mörkuðum, en við getum ekki sinnt með sama hætti öðrum mörkuðum.

Á hinn bóginn, og það skiptir líka mjög miklu máli og ég held að þar séu hin miklu langtímaáhrif af þessu, hefur komið glögglega fram m.a. á fundum sem ég hef átt með kaupendum að íslenskum fiski að menn telja að það að við göngum í þetta verk núna og sýnum þessa miklu ábyrgð þrátt fyrir að við vitum að það hefur neikvæð skammtímaáhrif fyrir okkur bæði innan lands og fyrir atvinnugreinina sjálfa, hafi vakið athygli og þau viðbrögð á mörkuðum að menn telji að þetta þýði það í rauninni að Íslendingar séu að sýna að þeir eru ábyrg fiskveiðiþjóð sem er trú þeirri skoðun sinni að veiða með sjálfbærum hætti og það sé að skapa okkur forskot. Ég var í gær á mjög stórum fundi þar sem sátu um 500 manns víða að úr heiminum þar sem verið var að fjalla um þessa hluti og þar kom þetta mjög skýrt fram, t.d. hjá einum stærsta fiskkaupanda okkar í Þýskalandi, forstjóra Deutsche See, sem sagði það bókstaflega að fiskur frá Íslandi, veiddur innan íslenska kerfisins og unnin af Íslendingum væri í sjálfu sér vörumerki (Forseti hringir.) og tákn um fisk sem hægt væri að kaupa undanbragðalaust.