135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við verðsamráði olíufélaganna.

415. mál
[18:46]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Hvatningunni er vel tekið og ég tel að við höfum verið heppin með val á lögmanni í þessu tilfelli. Hann hefur sýnt það að hann kann til verka í málum sem þessum.

Hins vegar er það nú þannig að sekt um samráð þýðir ekki endilega að hægt sé að sýna fram á skaðabótaskyldu. Það er auðvitað hlutverk þeirra sem vinna að málinu að vinna úr þeim gögnum og sjá hvort þau eru þess eðlis að líklegt sé að skaðabótaskylda yrði dæmd í málinu. Það er það sem verið er að gera núna og vonandi kemur niðurstaða úr því innan tíðar svo hægt sé að ganga frá málinu.