135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

málefni fatlaðra á Reykjanesi.

[10:33]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það kom fram í gær og fyrradag hér á þinginu að fjárhagsvandi væri á svæðisskrifstofu fatlaðra á Reykjanesi. Það kom einnig fram að vandkvæði væru með úrræði varðandi stuðningsfjölskyldur og að við veittum fötluðum börnum ekki þá þjónustu sem þau ættu rétt á. Það hefði verið sagt við þau að þau þyrftu að bíða eftir þjónustu og það væri vegna rekstrarvanda hjá svæðisskrifstofunni. Fram kom hjá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra í gær að leysa ætti þennan rekstrarvanda innan fjárheimilda svæðisskrifstofunnar en það kom einnig fram að það þyrfti að taka á vandanum. Tveir hv. þingmenn, sú er hér stendur og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, kölluðu eftir því hvort um aukafjárveitingu yrði að ræða en það kom ekki neitt skýrt fram í máli hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra þannig að líklega er það ekki á þessu stigi. Hæstv. ráðherra sagði að væri verið að vinna í þessu máli. Það kom líka fram að í Reykjavík og á Reykjanesi væru sennilega um 300 samningar við stuðningsfjölskyldur, þar væru fjölmargir samningar sem væru ógerðir, líklega um 30 talsins.

Ég hef því áhuga á því, virðulegi forseti, að heyra hvort hæstv. fjármálaráðherra muni með einhverjum hætti koma inn í þetta mál þannig að það sé alveg tryggt að þessi þjónusta verði veitt. Það þurfi þá ekki að skera niður annars staðar innan svæðisskrifstofu fatlaðra þannig að við (Forseti hringir.) megum búast við fleiri uppákomum af þessu tagi á næstunni.