135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

málefni fatlaðra á Reykjanesi.

[10:36]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta er nokkuð sérstakt þegar hæstv. fjármálaráðherra segist ekkert hafa heyrt af þessu máli nema hér í þinginu. Þetta mál hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og það oftar en einu sinni. Ég er alveg sannfærð um að hæstv. fjármálaráðherra fylgist eitthvað með fjölmiðlum og það getur ekki verið að þetta hafi farið algerlega fram hjá honum. En látum það nú vera.

Fyrst hæstv. fjármálaráðherra hefur ekkert fylgst með þjóðmálaumræðunni og þessu máli upp á síðkastið þá er það þannig að það vantar greinilega fjármagn til þess að fólk fái sína lögbundnu þjónustu. Nú á að reyna að leysa þetta innan stofnunarinnar en það er alveg ljóst að það verður þá að taka fjármagn annars staðar frá. Ég skora því á hæstv. fjármálaráðherra að skoða þetta mál og lýsi furðu minni yfir því að hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hafi ekkert upplýst ráðherrann um það. Það er stórmerkilegt en það verður að leysa þennan (Forseti hringir.) fjárhagsvanda, virðulegi forseti.