135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

samkeppnishæfni í ferðaþjónustu.

[10:38]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar eigum því láni að fagna að tróna oft á toppnum þegar lífskjarakannanir og kannanir um samkeppnishæfni eru annars vegar og berjum okkur þá stundum á brjóst. En í gær fengum við hins vegar samanburð um samkeppnishæfni þjóða frá Alþjóðaefnahagsráðinu þar sem við erum að falla út af topp tíu listanum um samkeppnishæfni í ferðaþjónustu. Við förum þar úr fjórða sætinu í hið ellefta á milli ára en Alþjóðaefnahagsráðið hefur í 30 ár gefið út samkeppnisvísitölu fyrir ferðaþjónustuna. (Gripið fram í.) Það sem er athyglisvert í þessu er að þarna veldur ýmislegt, m.a. takmarkanir á erlendri fjárfestingu og eitt og annað. Athygli vekur að í ár breytir Alþjóðaefnahagsráðið aðferðum sínum við að mæla samkeppnishæfni og tekur aukið tillit til umhverfisverndar og sjálfbærni. Það er ein af ástæðum þess að við föllum út af topp tíu listanum. Þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda erum við í 90. sæti á listanum eða langt fyrir neðan miðju og langt fyrir neðan allt sem við Íslendingar mundum venjulega telja viðunandi. Eru þó ekki komin inn áhrifin af mengandi starfsemi á Austfjörðum sem koma inn af fullum krafti í ár og munu þá væntanlega hafa áhrif til frekari lækkunar á næsta ári.

Mér finnst þetta gefa tilefni til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort þetta kunni að benda til að ímynd landsins hafi þegar beðið ákveðinn skaða af því að við höfum í vaxandi mæli leyft mengandi starfsemi. Hvort hér séu aðrar atvinnugreinar, í þessu tilfelli ferðaþjónustan, farnar að líða fyrir það í samkeppnisskilyrðum hversu mikinn forgang mengandi starfsemi hefur haft hér í landinu á undanförnum árum og hvort þetta kalli ekki á ákveðið endurmat hjá okkur á því í hve miklum mæli við ætlum að leyfa aukna mengandi starfsemi í landinu. Jafnframt spyr ég um hvort ekki sé við því að búast að alþjóðastofnanir muni í vaxandi mæli (Forseti hringir.) horfa til umhverfismála og losunar gróðurhúsalofttegunda í samanburði á lífskjörum og samkeppnisskilyrðum á næstu árum.