135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

lækkun tolla á matvæli.

[10:44]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að ég fái hljóð í salnum því það mál sem ég vil ræða hér er mjög mikilvægt. Búnaðarþingi er að ljúka þessa dagana og áhyggjur bænda af stöðu mála vegna stórhækkandi verðs á aðföngum eru ærnar. Á sama tíma standa þeir frammi fyrir mjög óljósum fyrirheitum ríkisstjórnarinnar um að endurskoða alla tolla á innfluttum landbúnaðarvörum.

Nú er það svo að svigrúm til að fella niður tolla er í rauninni mjög lítið. Tollar hafa lækkað mjög mikið á undanförnum árum og ef það verður ráðist þar enn á þá mun það gera íslenskum landbúnaði mjög erfitt fyrir.

Það var greinilegt af þeim ræðum sem hæstv. landbúnaðarráðherra flutti á búnaðarþingi að hann hafði mikinn skilning á þessum hlutum og menn hafa miklar áhyggjur af stöðu mála. En vegna þeirrar sérstöku stöðu sem við höfum, með ríkisstjórn sem talar oft og tíðum í nokkuð margar og misvísandi áttir, þá ég kalla eftir í svörum hjá hæstv. fjármálaráðherra um hvort hæstv. landbúnaðarráðherra hafi verið að tjá prívatskoðanir sínar eða hvort hæstv. fjármálaráðherra deili þeim skoðunum með honum að staðan sé grafalvarleg og hvernig ríkisstjórnin muni bregðast við með tollalækkanir.

Sjálfur hef ég ákveðnar hugmyndir um að hægt sé að mæta kröfum neytenda um lækkað matvælaverð án þess að höggva svo beint að bændum eins og gert væri með beinni tollalækkun. Þetta er hægt að gera t.d. með því að koma inn á matarskattinn og með fleiri aðgerðum sem geta verkað til lækkunar á matvælaverði.

En það að ráðast núna t.d. í stórfellda lækkun á tollum á hvíta kjötinu gæti í rauninni gengið frá íslenskum landbúnaði og kannski er það það sem samstarfsflokkur hæstv. fjármálaráðherra óskar sér að gert verði, (Forseti hringir.) með ríkisstjórninni.