135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

lækkun tolla á matvæli.

[10:47]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Það kann að vera rétt hjá hæstv. ráðherra að ég þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. landbúnaðarráðherra gangi ekki í takt en það segir mér lítið um það hver er stefna ríkisstjórnarinnar. Það er hún sem ég kalla svolítið eftir í þessu máli því gefin voru fyrirheit við gerð síðustu kjarasamninga um stórfellda lækkun á tollum og það er það mál sem búnaðarþing sem nú stendur kallar eftir að sé svarað, hvar sú lækkun á að koma niður og hvaða aðgerða ríkisstjórnin ætlar að grípa til.

Það er líka kallað eftir því hjá launþegasamtökum, sem von er og auðvitað viljum við öll sjá hér lægra matvælaverð. Það er með mjög einföldum hætti hægt að koma til móts við báða hópa í senn, bændur og neytendur, með því að minnka þær álögur sem ríkið leggur á öll matvæli jafnt og þá mundi það lækka verð jafnt á innfluttum sem innlendum matvælum. En ef farin verður sú leið sem óljós fyrirheit voru um við gerð kjarasamninga, að lækka aðeins verð á innfluttum matvælum á sama tíma og það (Forseti hringir.) er stórfelld hækkun í farvatninu á innlendum landbúnaðarafurðum þá er hag landbúnaðarins stefnt mjög í voða.