135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

lækkun tolla á matvæli.

[10:49]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Það er svo sem skiljanlegt að hv. þingmenn Framsóknarflokksins vilji gjarnan tala digurbarkalega í þessum efnum og reyni að gera lítið úr ríkisstjórninni og ráðherrum hennar sem með þessi mál fara. En það er einfaldlega þannig í þessari ríkisstjórn eins og í öðrum ríkisstjórnum, (Gripið fram í.) að landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra fara með þessi mál og þeir tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um þessi efni. Við munum að sjálfsögðu fara eftir þeim yfirlýsingum sem gefnar hafa verið bæði gagnvart neytendum og eins gagnvart bændum.

Ég endurtek að þótt ýmsar blikur séu á lofti hvað varðar landbúnaðinn um þessar mundir þá þarf hv. þingmaður og aðrir ekki að hafa áhyggjur af því að ríkisstjórnin muni ganga á einhvern harkalegan hátt fram í þessum efnum.