135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

norræna ráðherranefndin 2007.

452. mál
[10:58]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir skýrslu samstarfsráðherra Norðurlanda um störf norrænu ráðherranefndarinnar árið 2007 í fjarveru hæstv. samstarfsráðherra Össurar Skarphéðinssonar.

Alþjóðavæðingin og þær áskoranir sem af henni leiðir voru í fyrirrúmi á norrænum vettvangi á árinu. Finnar, sem gegndu formennsku í ráðherranefndinni lögðu í formennskuáætlun sinni megináhersluna á að auka möguleika landanna á að svara áskorunum hnattvæðingarinnar. Og enn var hnykkt á þegar forsætisráðherrarnir settu starfsemi ráðherranefndarinnar nýja dagskrá á fundi sínum í júní í Finnlandi. Það var gert í formi yfirlýsingar sem kennd er við fundarstaðinn, Punkaharju.

Í yfirlýsingunni segir að Norðurlönd skuli sameinast um að nýta eftir mætti þau tækifæri sem falist geti í hnattvæðingunni með því að þróa áfram norræna módelið þar sem velmegun íbúa, samkeppnishæfni fyrirtækja, atvinnusköpun og hagvöxtur, sameiginleg menning og sjálfbær þróun eru í öndvegi.

Forsætisráðherrarnir lögðu fyrir samstarfsráðherrana að aðlaga innra skipulag ráðherranefndarinnar og norrænu fjárlögin að því þverfaglega samstarfi sem til þyrfti til að ná þessum markmiðum. Þá töldu þeir upp ekki færri en fjórtán misstór verkefni sem vinna skyldi hafin við og kváðu svo á um að lagðar yrðu allt að 60 milljónum danskra króna á fjárlögum ársins til þessarar nýju starfsemi. Forsætisráðherrarnir lögðu jafnframt á það áherslu að reglulegt samráð yrði haft við Norðurlandaráð og stöðuskýrsla lögð fyrir næsta forsætisráðherrafund sem haldinn var í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Ósló.

Framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarskrifstofunnar lagði þegar í upphafi á það áherslu að nauðsynlegt væri að beita meiri miðstýringu en venja er í norrænu samstarfi til að framvindan yrði nægilega hröð og var sú leið valin. Og þegar litið er til þess hve skammur tími var til stefnu fram að næsta fundi forsætisráðherranna, skyldi engan undra að vel skyldi hafa þurft að halda á spöðunum. Ekki ætti það frekar að vekja undrun að ýmsum úr hópi þingmanna, ráðherra og embættismanna skuli vegna þessa á stundum hafa þótt nokkur fljótaskrift á samráðinu.

Einlægur áhugi er í hópi samstarfsráðherranna á að ráða bót á þessum vanköntum og ég vil fullvissa fulltrúa Íslands í Norðurlandaráði og aðra alþingismenn um að samstarfsráðherra Íslands telur það nauðsynlega forsendu þess að árangur náist að þingmenn og viðkomandi fagsvið verði framvegis með í ráðum og mun gera það sem í hans valdi stendur til að svo verði.

Hæstv. forseti. Ég mun nú lýsa stuttlega þeim fjórtán verkefnum sem forsætisráðherrarnir kölluðu eftir því einhver misbrestur virðist hafa verið á upplýsingagjöf um þau. Fyrst vil ég nefna norræna áætlun um hágæðarannsóknir á loftslagsbreytingum, umhverfi og hreinni orku, sem lögð verður fyrir fund forsætisráðherranna í júní. Þetta er stórt og afar mikilvægt verkefni sem vonir eru bundnar við að geti orðið árangursríkt. Þó ber að benda á að forsenda ásættanlegs árangurs er að fyrirhuguð starfsemi verði ekki bara kostuð af norrænum fjárveitingum heldur einnig af löndunum beint og atvinnulífinu. Á grundvelli reynslu sem fæst af undirbúningi þessarar áætlunar verður síðan gerð sams konar rannsóknaráætlun á sviði heilbrigðis- og velferðarmála.

Þá kölluðu forsætisráðherrarnir eftir því að skoðaðir yrðu möguleikar þess að opna norrænar nýsköpunarmiðstöðvar í Asíu og víðar. Finnland, Danmörk og fleiri ríki hafa þegar opnað slíkar miðstöðvar á nýjum markaðssvæðum í fjarlægum löndum. Þær eru reknar með mismunandi hætti en oftast í tengslum við sendiráð landanna. Könnun á möguleikum þessa er hafin en þegar er ljóst að samstarf um slíka starfsemi er einungis mögulegt á þeim stöðum þar sem ekki eru nýsköpunarmiðstöðvar fyrir. Ómögulegt er að segja fyrir um niðurstöðuna en hitt er ljóst að Ísland, sem hefur ekki burði til að reka nýsköpunarmiðstöðvar víðs vegar um heim, hefði hag af slíku samstarfi.

Forsætisráðherrarnir kölluðu einnig eftir því að lögð yrði fyrir Norðurlandaráð tillaga um að stofnað verði til nýsköpunarverðlauna fyrir norræn gæði. Verið er að undirbúa málið í samráði við viðkomandi nefndir Norðurlandaráðs og fleiri með það að markmiði að leggja tillögu fyrir forsætisráðherrana um mitt ár. Vitað er að innan Norðurlandaráðs eru ákveðnar efasemdir um að skynsamlegt sé að stofna til enn einna norrænna verðlauna en markmiðið er að finna lausn sem sátt getur ríkt um.

Það er brýnt að Norðurlönd leggi sitt af mörkum til að árangursrík niðurstaða náist í samningum um nýjan loftslagssamning eftir 2012 þegar Kyoto-samningurinn rennur út. Til að svo geti orðið er mikilvægt að samstaða náist um nýjan samning á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn um loftslagsmál í desember 2009. Því er unnið að því að greina ákveðin vandamál sem Norðurlönd gætu sameiginlega stuðlað að lausn á.

Í samræmi við tilmæli forsætisráðherranna er einnig stefnt að því að Norðurlönd kynni sig sameiginlega í tengslum við leiðtogafundinn í Kaupmannahöfn sem svæði sem er í fararbroddi, hvað varðar umhverfisvæna og endurnýjanlega orkugjafa og sjálfbærar orkulausnir. Áhersla verður einnig lögð á að atvinnulífinu verði þar búinn góður vettvangur til að kynna sig og styrkja í sessi.

Á heimssýningunni í Sjanghæ 2010 verða Norðurlönd ekki með sameiginlegan sýningarskála, en unnið er að því að þau sameinist allt að einu um einstaka viðburði eða sýningar undir yfirskrift sýningarinnar „Betri borgir – betra líf“. Eitt af því sem kannað verður er hvort endurnýta megi eitthvað af því sem löndin hyggjast sameinast um í tengslum við leiðtogafundinn í Kaupmannahöfn.

Forsætisráðherrarnir hafa kallað til sérstaks hnattvæðingarþings í Norður-Svíþjóð í byrjun apríl. Ætlunin er að slík þing verði árlegur viðburður þar sem skipst verður á skoðunum og hugmyndum um viðbrögð landanna við hnattvæðingunni. Þema þingsins verður að þessu sinni loftslag og orka með sérstöku tilliti til samkeppnisfærni. Til þingsins hefur verið boðið fulltrúum atvinnulífsins, vísindasamfélagsins, stjórnmálamanna og frjálsra félagasamtaka.

Á árinu var lagður grunnur að sérstökum samstarfsvettvangi um afnám stjórnsýsluhindrana á Norðurlöndum. Starfsemin er nú hafin og fulltrúi Íslands þar er Guðríður Sigurðardóttir, fyrrverandi ráðuneytisstjóri. Vonir eru bundnar við að þessi nýskipan gefi góða raun. Til að svo verði þarf skilning í löndunum bæði meðal alþingismanna en ekki síður í stjórnsýslunni á því að nauðsynlegt getur reynst að breyta lögum og reglum til að þeir sem flytja milli landanna missi ekki við flutninginn rétt sinn samkvæmt Helsinki-samningnum.

Árið 2004 samþykktu rannsókna- og atvinnumálaráðherrar Norðurlanda ályktun um að gera Norðurlönd að framúrskarandi svæði á sviði rannsókna og nýsköpunar, sem nefnt var NORIA. Forsætisráðherrarnir leggja á það þunga áherslu að þessu ferli verði hraðað og því gefið aukið vægi í samstarfinu. Undirliggjandi er það markmið að styrkja Norðurlönd á heimsvísu með opnum og sameiginlegum markaði fyrir rannsóknir og nýsköpun.

Enn eitt markmiðið sem forsætisráðherrarnir settu samstarfi landanna og unnið er að, er að gera Norðurlönd að aðlaðandi svæði til náms og rannsókna á æðri stigum með því að efla tengsl milli norrænna háskólastofnana.

Þá er unnið að verkefnaáætlun um bætta menntun fyrir ungmenni og fullorðna í því skyni að auka fjölda þeirra sem afla sér menntunar eftir grunnskóla. Hún stefnir og að því að auka þekkingu á hvernig best megi haga lestrar- og skriftarkennslu fyrir fullorðna.

Skapandi atvinnugreinar eru meðal þess sem efla skal í samræmi við áherslur forsætisráðherranna. Löndin vinna hvert um sig að því að auka vægi skapandi atvinnugreina þó enn séu miklir þróunarmöguleikar vannýttir. Markmiðið er að gera Norðurlöndum kleift að markaðssetja sig sem svæði sem tekur öðrum fram hvað varðar skapandi atvinnugreinar. Að þessu er nú unnið á grundvelli grænbókar sem norræna nýsköpunarmiðstöðin NICe lét gera síðla árs 2007.

Verið er að undirbúa viðamikla úttekt á áhrifum loftslagsbreytinga á náttúruauðæfi Norðurlanda til að varpa ljósi á þær afleiðingar sem loftslagsbreytingarnar geta haft í för með sér fyrir landbúnað, sjávarútveg, skógrækt og matvælaiðnað. Þá verður leitast við að skilgreina hvernig unnt verði að bregðast við loftslagsbreytingunum með tilliti til þessara atvinnugreina.

Fjórtánda og síðasta verkefnið sem unnið er að á grundvelli yfirlýsingar forsætisráðherranna snýr að samræmingu norræna raforkumarkaðarins í því skyni að gera hann skilvirkari og sjálfbærari en hann er í dag.

Herra forseti. Heildarrammi norrænna fjárlaga ársins 2008 er 910 milljónir danskra króna og af þeim eru fjárveitingar til alþjóðavæðingarverkefnanna fjórtán 56 milljónir danskra króna. Unnt var að hækka fjárlögin fyrir árið 2008 tímabundið um 35 milljónir danskra króna án þess að inngreiðslur frá löndunum hækkuðu að sama skapi, vegna óvenju hárrar lausafjárstöðu ráðherranefndarinnar. Vegna þessarar tímabundnu hækkunar fjárlaganna þurfti einungis að beita um 2% flötum niðurskurði til að fjármagna alþjóðavæðingarverkefnin.

Hvað varðar árið 2009 er staðan önnur því upphæð fjárlaganna verður þá sú sama að raunvirði og hún var 2007. Sú leið sem ætluð er að fara til að fjármagna alþjóðavæðingarverkefnin það ár er að beita flötum niðurskurði sem ýmist verður 2 eða 5%. Eina undantekningin eru fjárveitingar til svonefndra sameiginlegra verkefna sem eru á borði samstarfsráðherranna sem verða skorin niður um 10%. Ég get ekki gefið nákvæmari upplýsingar um niðurskurðinn því það verður á valdi viðkomandi fagráðherranefndar að ákveða hvar gripið verður niður.

Vegna þessarar lækkunar á fjárveitingunum til sameiginlegra verkefna var ákveðið að segja upp þjónustusamningi ráðherranefndarinnar við upplýsingaskrifstofur Norræna félagsins utan höfuðborganna. Þess í stað hefur nú verið ákveðið að hækka styrk ráðherranefndarinnar til Norrænu félaganna jafnmikið og þjónustusamningurinn hljóðaði upp á. Mér er ánægja að skýra frá þessu hér á Alþingi vegna þess að mál þetta hefur valdið þingmönnum Norðurlandaráðs nokkrum áhyggjum.

Staða Færeyja, Grænlands og Álandseyja hefur verið til umfjöllunar í hópi norrænu samstarfsráðherranna með hléum frá árslokum 2002. Árið 2006 var lögð fyrir ráðherrana sérfræðiskýrsla um laga- og þjóðréttarlega stöðu landanna í danska og finnska ríkinu og með tilliti til norrænna samninga. Að lokinni umfjöllun um skýrsluna skipuðu ráðherrarnir starfshóp til að móta tillögur um úrbætur á stöðu landanna í norrænu samstarfi innan þess ramma sem Helsinki-samningurinn setur. Samkvæmt tillögum starfshópsins, sem samstarfsráðherrarnir gerðu að sínum, er lagt til að ráðherrar sjálfstjórnarlandanna og embættismenn geti leitt norræna fundi fyrir hönd Danmerkur eða Finnlands, að þeir geti setið í stjórnum norrænna stofnana á sömu forsendum og fulltrúar norrænu ríkjanna og að þeir geti svarað fyrirspurnum og ályktunum Norðurlandaráðs um þau málefni sem löndin hafa yfirtekið. Samstarfsráðherrar allra sjálfstjórnarlandanna hafa lýst ánægju með tillögurnar, en Færeyingar, sem óska fullrar aðildar að samstarfinu, taka fram að umsókn þeirra um aðild standi óbreytt.

Sú starfsemi ráðherranefndarinnar sem snýr að Eystrasaltsríkjunum, Norðvestur-Rússlandi og Hvíta-Rússlandi var töluverð á árinu. Reknar eru norrænar skrifstofur í Tallinn, Ríga, Vilníus og Pétursborg þar sem fjölbreytt starfsemi fer fram. Árið var fyrsta starfsár verkefnis sem snýr að þekkingaruppbyggingu og myndun tengslaneta í Rússlandi og annað starfsár áætlunar um stuðning við frjáls félagasamtök í Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Eystrasaltsríkjunum. Þá var á árinu gerður samstarfssamningur við borgaryfirvöld í Pétursborg um samstarf á sviði jafnréttis-, félags- og heilbrigðismála þar sem aðgerðir gegn mansali og félagslegum vandamálum eru í fyrirrúmi.

Norræna ráðherranefndin styður bæði með fjárframlögum og á annan hátt hvítrússneskan háskóla, European Humanities University, sem starfræktur er í Vilníus vegna þess að hann missti starfsleyfi sitt í Hvíta-Rússlandi. Um 500 hvítrússneskir stúdentar stunda nú nám þar. Auk ráðherranefndarinnar veita ESB, Finnland, Svíþjóð og fleiri aðilar háskólanum fjárstuðning.

Norræna vísindasamstarfið er í meginatriðum skipulagt með aðstoð NordForsk stofnunarinnar sem hóf störf 2005. Þar er lögð rík áhersla á að laða til starfa framsæknustu aðila í vísindum til að ná fram sem sterkustum áhrifum á alþjóða mælikvarða. Sett hafa verið á stofn norræn öndvegissetur á fimm sviðum sem snúa m.a. að hug- og félagsvísindum, velferðarsamfélaginu, sameindalíffræði, matvælum, næringu og heilsu. Í tengslum við öndvegissetrin eru starfræktir norrænir rannsóknarnámsskólar og skipulagt netsamstarf rannsóknarnámsskóla á Norðurlöndum.

Til að efla samstarf háskóla á Norðurlöndum og hinn sameiginlega norræna menntamarkað á þeim sviðum þar sem Norðurlönd eru faglega sterk ákváðu menntamálaráðherrarnir á árinu að styrkja samstarf háskóla á Norðurlöndum til að setja upp og bjóða fram sameiginlega norræna meistaragráðu. Stefnt er að því að starfsemin hefjist á árinu 2008.

Gagngerri endurskipulagningu á menningarsamstarfinu lauk á árinu. Hið nýja skipulag einkennist af því að starfsemin fer nú fram samkvæmt tímabundnum áætlunum og öll yfirbygging hefur verið einfölduð mikið.

Á félagsmálasviði var unnið að undirbúningi sérstakrar gáttar um almannatryggingar sem opnuð verður síðar á þessu ári.

Til að styrkja starfsemi þá sem snýr að erfðavísum plantna og búpenings voru norrænu genabankarnir fyrir nytjaplöntur og búpening og norræna frænefndin í skógrækt sameinuð í eina stofnun, NordGen, sem verður norræn þekkingarmiðstöð um lífbreytileika nytjategunda.

Norræna ráðherranefndin leggur ríka áherslu á að eiga sem best samstarf við Norðurlandaráð. Það á við um öll svið samstarfsins en sérstaklega um norrænu fjárlögin enda brýnt að góð sátt ríki um þau þegar þau eru afgreidd á þingi Norðurlandaráðs. Til að stuðla að því eru samráðsfundir haldnir reglulega meðan á fjárlagaferlinu stendur. Ég vil í því sambandi nefna að í tengslum við fjárlög ársins 2007 lagði ráðið sérstaka áherslu á málefni Norðurskautsins, á eftirfylgni við skýrsluna Norðurlönd sem sigursvæði á heimsvísu og á norræna félags- og heilbrigðissamstarfið. Komið var til móts við óskir ráðsins með því að veita aukalega samtals 12,2 milljónir danskra króna til þessara málaflokka.

Skýrsla samstarfsráðherra um störf norrænu ráðherranefndarinnar er nú lögð fram fyrir Alþingi í tuttugasta og fyrsta sinn. Markmiðið er að varpa upp mynd af starfseminni og gefa alþingismönnum kost á að bera fram sjónarmið sín um pólitísk stefnumið og áherslur.

Virðulegi forseti. Ég varði drjúgum hluta ræðutíma míns í að gera grein fyrir áherslum forsætisráðherranna vegna þess kastljóss sem hefur verið á þeim en fjárveitingar til þeirra verkefna nema þó einungis litlu broti af heildarfjárlögum ráðherranefndarinnar. Starfsemin er því margfalt umfangsmeiri og fjölbreyttari og mér hefur einungis gefist tími til að drepa á lítinn hluta þeirra góðu verka sem unnin voru á árinu en bendi hv. þingmönnum á skýrsluna sjálfa um frekari upplýsingar.