135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

norræna ráðherranefndin 2007.

452. mál
[11:28]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf á árinu 2007. Skýrslan liggur frammi og ég tel ekki ástæðu til að endursegja efni hennar hér úr ræðustól. Hún liggur fyrir á þingskjali 719 og þar er fjallað um fundi og starfsemi nefnda Norðurlandaráðs auk Norðurlandaráðsþingsins sem haldið var í Ósló í haust. Ég vil því í þessari ræðu horfa á stærstu málin í norrænu samstarfi um þessar mundir og starfi Norðurlandaráðs og drepa á nokkur atriði.

Vegna þess sem kom fram um í umræðu um skýrslu hæstv. samstarfsráðherra vil ég fyrst gera aðeins að umræðuefni vinnuna að stóra hnattvæðingarverkefninu á vettvangi Norðurlandaráðs á liðnu ári. Sú breyting hefur orðið á norrænu samstarfi á undanförnum árum að norrænt samstarf snýst í auknum mæli um sameiginleg verkefni Norðurlandanna í hinum stærri heimi. Hluti af því er þetta hnattvæðingarverkefni og vegna þeirrar áherslu hafa umræður á vettvangi Norðurlandaráðs og verkefni sem þar hafa verið sett á fót í auknum mæli snúið að sameiginlegum aðgerðum og atbeina Norðurlandanna allra í hinum stærri heimi.

Norðurlandaráð átti á árinu 2006 frumkvæði að því að hleypa af stokkunum þessu hnattvæðingarverkefni sem norræna ráðherranefndin tók svo upp á arma sína síðasta sumar eftir ákvörðun forsætisráðherra Norðurlandanna þar um í júní. Það er mjög athyglisvert að sú áhersla sem þetta mál hefur fengið fléttar saman alla þætti, ólíka þætti. Þarna er rætt um samkeppnishæfni Norðurlandanna og þarna er líka rætt um loftslagsmál og aðra slíka þætti. Það er því verið að nálgast þær áherslur sem Norðurlöndin geta haft á alþjóðavettvangi með samþættum hætti í gegnum þetta verkefni.

Eitt af því sem ákveðið var er að veita fé, umtalsvert fé sem hér hefur verið nefnt, 60 millj. danskra króna, í sérstök verkefni á vegum hnattvæðingarvinnunar. Þar hefur hnífurinn nokkuð staðið í kúnni því að áhyggjur þingmanna hafa beinst að því að það hefur verið ákveðin tilhneiging af hálfu norrænu ráðherranefndarinnar til að láta þann niðurskurð sem á móti þurfti að koma bitna fyrst og fremst á verkefnum á sviði menningarmála og hafa þar af leiðandi mikla tilvísun til almennings og eru kannski hinir sýnilegustu þættir norræns samstarfs gagnvart almenningi á Norðurlöndunum. Það hefur verið okkur áhyggjuefni í ljósi þess að norrænt samstarf byggir að sjálfsögðu á mjög víðtækri almannaþátttöku. Þetta er sérstakt alþjóðasamstarf að því leyti að það byggir sögulega á þátttöku almennings í gegnum norrænu félögin og það hefur haft að markmiði ýmis verkefni meðal almennings í löndunum sjálfum sem er einsdæmi í alþjóðasamstarfi. Auk þess er með formlegum hætti tryggð aðkoma kjörinna fulltrúa að ákvörðunum sem síðan eru teknar af hálfu norrænu ráðherranefndarinnar.

Við höfum haft áhuga á að tryggja þessa tengingu við almenning á Norðurlöndunum í gegnum þau verkefni sem unnin eru og við teljum og höfum talið að áætlanir norrænu ráðherranefndarinnar um ný verkefni á þessu sviði væru nokkuð í skötulíki, seint fram komnar, ekki mjög ítarlegar og ekki mjög ljóst hvaða ávinning hin nýju verkefni mundu hafa í samanburði við þau verkefni sem stefnt væri að skera niður. Það er grundvallarforsenda skynsamlegrar forgangsröðunar að menn viti þegar kemur að því að skera niður hvað þeir fá í staðinn fyrir þá peninga sem á að spara með niðurskurðinum. Við vonumst til að ná auknu samráði við ráðherranefndina um þetta atriði en það er mjög mikilvægt að við höfum í huga að mörg þeirra verkefna sem við Íslendingar leggjum mesta rækt við, sérstaklega verkefni á sviði menningarmálanna, hafa kannski hlutfallslega meira vægi á Íslandi en í öðrum löndum. Okkur er að sjálfsögðu mjög kært að tryggja starfsgrundvöll Norræna hússins til langframa og mikilvægt að sjá að þar er metnaðarfull stjórn þessa dagana.

Eins og ég nefndi eru áherslur á vettvangi Norðurlandaráðs í mikilli mótun á þessum tímapunkti. Það má segja að norrænt samstarf standi á miklum tímamótum. Við sjáum að helstu verkefnin sem unnin eru á vettvangi norræns samstarfs nú eins og hnattvæðingarverkefnið, eins og áherslan í loftslagsmálum í aðdraganda leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn 2009 og áherslan á samkeppnishæfni Norðurlanda eru allt verkefni sem snúa að hlutskipti og hlutverki og stöðu Norðurlandanna í hinum stærri heimi.

Það er tímanna tákn að æ stærri hluti af starfi Norðurlandaráðs og af þeim verkefnum sem norrænt samstarf snýst um skuli vera farinn að snúast að verkefnum af þessum toga sem snúa að því að horfa til þess að stilla saman strengi Norðurlandanna á hinu stærra sviði hvort sem er á Evrópuvettvangi eða alþjóðavettvangi. Gott dæmi um það er verkefnið um landamærahindranir sem hefur verið á vettvangi Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar síðustu ár og hefur nú verið komið í gott og skilvirkt ferli á vegum nefndarinnar. Landamærahindranir milli Norðurlandanna í dag skapast að mestu leyti vegna þess hvaða hátt Norðurlöndin velja sér við innleiðingu á Evrópureglum vegna þess að á langflestum sviðum er um að ræða að ríkin eru, öll fimm á ólíkum forsendum þó, skuldbundin að innleiða Evrópureglur og helstu landamærahindranir sem skapast nýjar í dag eru vegna ólíkra aðferða við að innleiða þessar reglur. Það sýnir líka mikilvægi þess að Norðurlöndin stilli saman strengi sína á vettvangi norræns samstarfs og undirbúi þannig málflutning sinn á evrópskum vettvangi.

Í þessu samhengi held ég að það sé mikilvægt fyrir okkur sem þingmenn að hugleiða hvaða breytingar eru að verða á ákvarðanatöku innan Evrópusambandsins í kjölfar gildistöku hins nýja umbótasáttmála þar sem Evrópuþingið og þingin í aðildarríkjunum munu öðlast meiri íhlutunarrétt og áhrifarétt um ákvarðanir á vettvangi Evrópusambandsins. Það þýðir aftur að fyrir okkur sem ekki búum við slíkan aðgang vegna þess að við erum ekki aðilar að Evrópusambandinu sem og fyrir Norðmenn skapast alveg ný sýn á mikilvægi norræns samstarfs og mikilvægi alþjóðasamstarfs eða Evrópusamstarfs þingmanna yfirleitt, þ.e. að við eigum við flokksbræður okkar opin samtöl á alþjóðlegum vettvangi til þess að reyna að hafa áhrif á það hvernig þeir beita svigrúmi sínu til að hafa áhrif á reglur Evrópusambandsins þannig að það henti hagsmunum okkar. Þetta er algjörlega ný staða fyrir okkur og setur þörfina fyrir alþjóðasamstarf þingmanna í allt annað ljós. Af þessum ástæðum er ánægjulegt að til stendur af hálfu Alþingis að koma upp fulltrúa Alþingis hjá Evrópuþinginu í Brussel en ég held að með sömu rökum megi alveg segja að það sé fullkomlega eðlilegt að koma upp fulltrúa Norðurlanda í Brussel sem tali þar fyrir hönd norræns samstarfs jafnt ráðherranefndarinnar sem Norðurlandaráðs og hafi með höndum það hlutverk að vera andlit norræns samstarfs á þeim vettvangi.

Virðulegi forseti. Á síðasta ári urðu enn á ný umræður í Norðurlandaráði um stöðu sjálfsstjórnarsvæðanna innan Norðurlandaráðs. Þær urðu í framhaldi af umsókn Færeyinga um fulla aðild að Norðurlandaráði á sínum tíma. Í stuttu máli, án þess að ég ætli að rekja þá þróun alla í smáatriðum þá varð niðurstaða um það innan forsætisnefndar Norðurlandaráðs að ekki bæri að leggja til breytingar á Helsinki-sáttmálanum, stofnsáttmála Norðurlandaráðs, til að tryggja fulla aðild sjálfsstjórnarsvæðanna að Norðurlandaráði.

Á Norðurlandaráðsþinginu í Ósló urðu síðan þau tíðindi og þær breytingar að innan dönsku sendinefndarinnar myndaðist einhugur um að styðja breytingar á Helsingforssamningnum til samræmis við þessar óskir Færeyinga. Við þær aðstæður fundaði Íslandsdeildin á þinginu og það var samdóma álit okkar allra að fyrst svo væri komið að ekki væri ágreiningur um það innan dönsku sendinefndarinnar, þ.e. milli Dana og Færeyinga, hvernig taka ætti á þessu máli þá væri einboðið að við styddum einróma afstöðu dönsku sendinefndarinnar. Íslendingar hafa alltaf viljað forðast það að blanda sér í milliríkjamál milli Dana og Færeyinga og kosið að leyfa þessum vinum okkar og frændum að ráða sínum málum sjálfir án þess að við séum að hlutast þar um. En um leið og sú niðurstaða var orðin ljós að þarna var samstaða um að styðja þær nauðsynlegu breytingar sem þyrfti að gera á Helsingforssamningnum til að tryggja fulla aðild Færeyinga þá þótti okkur eðlilegt að styðja það og gerðum það öll á þinginu í Ósló. Sú breytingartillaga var felld með 37 atkvæðum gegn 20 en ég held að í ljósi þeirrar umræðu sem þar fór fram sé ljóst að á næstu árum mun koma til þess að menn horfi til þess að breyta Helsingforssáttmálanum til að tryggja þeim sjálfsstjórnarsvæðum sem það vilja fulla og rétta aðild að Norðurlandaráði.

Það hefur nokkuð borið á því í þessari umræðu að upp komi úrtöluraddir sem segja að við breytingar á Helsingforssáttmálanum væri verið að opna fyrir möguleg endalok norræns samstarfs vegna þess að ekki væri nauðsynlegur vilji ríkjanna til að halda samstarfinu áfram. Ég tel að viðbárur af þessum toga séu ekki boðlegar í lýðræðislegu samstarfi vinaþjóða ef norrænt samstarf hvílir á svo veikri stoð að það þoli ekki að veita sjálfsstjórnarsvæðunum þann rétt sem þau óska í aðild að norrænu samstarfi. Sjálfur er ég sannfærður um að hagur Norðurlandanna allra af þessu samstarfi hefur verið að aukast á síðari árum og því valda ekki síst þær breytingar sem hafa orðið á síðustu árum með stækkun Evrópusambandsins og aukinni þörf þeirra ríkja sem þar eru innan dyra til að ráða ráðum sínum annars staðar í undirbúningi ákvarðana þar. Meðan Evrópusambandið var fámennari ríkjahópur og Norðurlöndin áttu kannski meiri samhljóm með öllum ríkjunum sem þar voru inni gætti ákveðinnar tilhneigingar til að ræða málin fyrst og fremst á evrópskum vettvangi. Á síðustu árum hefur orðið vart aukinnar tilhneigingar aðildarríkjanna til að ræða á norrænum vettvangi sameiginlega afstöðu áður en kemur að því að þau tali síðan innan Evrópusambandsins fyrir sínum eigin sjónarmiðum. Það er auðvitað mjög jákvætt fyrir okkur Íslendinga sem höfum kosið að standa utan Evrópusambandsins að fá með þeim hætti aðkomu að stefnumótunarvinnu félaga okkar á Norðurlöndunum áður en þau hefja vinnu að ákvörðunum á evrópskum vettvangi.

Virðulegi forseti. Íslandsdeildin stóð fyrir tillöguflutningi á síðasta ári á sviði öryggis- og björgunarmála. Það gerðist á Norðurlandaráðsþinginu í Ósló í haust að norrænt samstarf í öryggismálum var rætt nokkuð undir dagskrárliðnum Utanríkismál. Slíkt hefði verið óhugsandi fyrir 20 árum. En umræðuhefðin hefur breyst og pólitískar aðstæður á alþjóðavettvangi hafa breyst og í síauknum mæli snýst starf á vettvangi Norðurlandaráðs um mótun afstöðu til utanaðkomandi atburða. Það hefur t.d. sýnt sig að þegar rætt er um loftslagsmál komast menn skammt í umræðu um þau mál ef þeir eru ekki tilbúnir að ræða um þau áhrif á öryggisviðbúnað og björgunarviðbúnað sem loftslagsbreytingar hafa á norðurhveli jarðar.

Við tókum þetta mál upp í kjölfar Norðurlandaráðsþingsins og það varð einhugur um það innan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs að leggja fram tillögur fyrir fund forsætisnefndar Norðurlandaráðs í Reykjavík í desember. Það er skemmst frá því að segja að á þeim fundi varð sú niðurstaða að óska eftir því við norrænu ráðherranefndina að ráðstefna hennar um samfélagsöryggi, sem búist er við að haldin verði á þessu ári, taki sérstaklega til umfjöllunar aukið borgaralegt samstarf um öryggismál og að greining á borgaralegu öryggi á Norður-Atlantshafi og við norðurskaut verði hluti af skýrslu ráðherranefndarinnar um samfélagsöryggi sem lögð verður fyrir Norðurlandaráðsþing í haust. Norðurlandaráð hefur kynnt norrænu ráðherranefndinni þessar hugmyndir og Íslandsdeildin hyggst fylgja því eftir að norræna ráðherranefndin sinni þessu verki.

Það er mikilvægt að Íslendingar þrýsti á um að þetta mál verði tryggilega á dagskrá í norrænu samstarfi. Það er líka mikilvægt að við áttum okkur á því að loftslagsbreytingar munu hafa gríðarleg áhrif á lífsskilyrði á norðurhveli jarðar og tímabært að umræða um það efni þroskist á íslenskum stjórnmálavettvangi. Hlýnun heimsins er ekki eitthvert atriði sem Íslendingar geta gantast með og látið sig dreyma um að tveggja til þriggja gráðu hlýnun væri bara ágætishugmynd hér á hjara veraldar. Þvert á móti getur hnattræn hlýnun haft gríðarleg áhrif á lífsafkomu okkar og möguleika til að búa í þessu landi til langframa og því mikilvægt að við áttum okkur á að það er mikilvægt pólitískt innanlandsverkefni ekki síður en verkefni á alþjóðavettvangi að vinna gegn loftslagsbreytingunum.

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka mjög gott og náið samstarf milli þingmanna innan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Ég nefndi hér tillögu þá sem við lögðum fram um borgaralegt öryggi á norðurslóðum og það var sérstakt ánægjuefni að allir þingmennirnir í deildinni voru einhuga um þá tillögu þvert á flokksbönd. Við höfum unnið náið og vel saman og ég vona að það góða samstarf haldi áfram. Ég vil að síðustu leggja áherslu á að norrænt samstarf er líklega sá grunnur sem skiptir okkur mestu að halda í á næstu árum og áratugum vegna þess að þar eigum við fjölþættari aðkomu að alþjóðasamstarfi en með nokkrum öðrum hætti, tryggari lýðræðislega aðkomu en nokkurs staðar annars staðar og þar höfum við mikla möguleika til að styrkja stöðu Íslands á hinum stærra alþjóðlega vettvangi.