135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

skýrslur um norrænt samstarf 2007.

452. mál
[11:57]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Hæstv. forseti. Skýrslu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2007 er að finna í þingskjali 936 sem hefur verið lagt fyrir Alþingi.

Vestnorræna ráðið fagnaði tíu ára afmæli sínu á síðasta ári. Meginmarkmið ráðsins er að vinna að sameiginlegum hagsmunum og standa vörð um menningararfleifð Vestur-Norðurlandanna sem eru Færeyjar og Grænland og Ísland. Til að sinna hlutverki sínum koma þingmenn Vestnorræna ráðsins, 18 talsins, þ.e. sex frá hverju landi, saman tvisvar sinnum á ári, annars vegar til ársfundar og hins vegar til þemaráðstefnu. Þar að auki fundaði forsætisnefnd ráðsins, sem skipuð er formönnum landsdeildanna þriggja, fjórum sinnum á árinu 2007.

Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins er skipuð hv. þm. þeim Árna Johnsen, Guðbjarti Hannessyni, Guðjóni A. Kristjánssyni, Guðna Ágústssyni, Jóni Gunnarssyni og þeim er hér stendur.

Á ársfundum ráðsins eru tilmæli og ályktanir er varða sameiginlega hagsmuni samþykktar og komið áleiðis til þjóðþinga landanna til þinglegrar meðferðar sem þingsályktanir. Slíkt var gert fyrir skömmu þegar ég mælti hér á Alþingi fyrir fimm þingsályktunum hinn 17. janúar sl.

Á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins mæta þingmenn þess ásamt fyrirlesurum og öðrum gestum eins og ráðherrum landanna þriggja, fulltrúum Norðurlandaráðs og forsætisnefndar Stórþings Noregs. Vestnorræna ráðið tekur virkan þátt í öðru alþjóðasamstarfi eins og fundum Norðurlandaráðs og þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál. Það eru nokkur mál sem mig langar að gera sérstaklega grein fyrir hér í dag, með leyfi hæstv. forseta.

Fyrst vil ég gera grein fyrir þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins og samstarfi við önnur þingmannasamtök og þing á árinu 2007.

Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um fríverslun og Vestur-Norðurlönd var haldin á Húsavík dagana 14.–17. júní. Ráðstefnan var sérstaklega upplýsandi og hvatti til skoðanaskipta um gildi fríverslunar fyrir einstök vestnorræn lönd og sameiginlega hagsmuni svæðisins í þeim efnum. Ráðstefnan var jafnframt liður í því að stofnað var til aukins samráðs milli utanríkisráðherra Íslands, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, og ráðherra utanríkismála Grænlands, Alequ Hammond, sem báðar fluttu erindi á ráðstefnunni. Samstarf Íslands og Færeyja varð einnig nánara á árinu en 15. september opnaði sendiskrifstofa Færeyja hérlendis en hún er ekki í sama húsnæði og danska sendiráðið eins og tíðkast annars staðar. Opnun sendiskrifstofunnar kemur í kjölfar opnunar aðalræðisskrifstofu Íslands í Þórshöfn í Færeyjum hinn 2. apríl og er hér um að ræða fyrstu sendiskrifstofu erlends ríkis sem starfrækt hefur verið í Færeyjum. Jóannes Eidesgaard, lögmaður Færeyja, sagði að opnun sendiskrifstofu Færeyja væri staðfesting á því gagnkvæma mati landanna að Hoyvíkursamningurinn, sem tók gildi í nóvember 2006 og gerir Færeyjar og Ísland að einu samræmdu markaðssvæði, væri báðum löndunum mikilvægur og að Færeyingar álíti samninginn fyrsta raunverulega skref Færeyinga út í hinn hnattvædda heim. Það er gleðiefni hversu náin tengsl Vestur-Norðurlandanna eru orðin og margt bendir til þess að þau muni verða nánari á komandi árum.

Ég lýsi hér einnig yfir ánægju vegna mjög jákvæðrar afstöðu hæstv. utanríkisráðherra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hvað samstarf Vestur- Norðurlandanna varðar.

Nú vil ég, með leyfi hæstv. forseta, geta um næstu þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin verður í Færeyjum dagana 2.–5. júní. Þá verður aðalumfjöllunarefnið aukið samstarf um öryggis- og björgunarmál á Norður-Atlantshafi og er það í samræmi við eina ályktun Vestnorræna ráðsins sem samþykkt var í ágúst síðastliðnum á ársfundinum í Nuuk, höfuðstað Grænlands. Því er svo við að bæta að ályktun þessi var einnig móttekin af Norðurlandaráði á Norðurlandaráðsþingi í lok október og tekin til málsmeðferðar í kerfi Norðurlandaráðs sem víkur athyglinni að samstarfi Vestnorræna ráðsins við aðrar þingmannasamkundur og þing á síðasta ári. Var það gert á grundvelli samstarfssamnings ráðanna frá árinu 2006. Fundur forsætisnefndar Norðurlandaráðs sem haldinn var 14. desember síðastliðinn í Reykjavík gerði björgunar- og öryggismál að þema sínu og var þar ákveðið var að fella þemað inn í skýrslu um samfélagslegt öryggi fyrir næsta Norðurlandaráðsþing. Þetta er dæmi um hvernig Vestnorræna ráðinu tókst til við að koma vestnorrænu hagsmunamáli á dagskrá norræns samstarfs í víðara samhengi, sem er sérstakt fagnaðarefni að mínu mati. Samstarfssamningur ráðanna er einnig dæmi um mikilvægi þess að eiga góða bandamenn og vini í norrænu samstarfi. Einn þeirra var Ole Stavad, danskur þingmaður og fyrrum forseti Norðurlandaráðs, en hann hefur beitt sér mikið í þágu Vestnorræna ráðsins. Hann lagði áherslu á nauðsyn þess að færa athygli Norðurlandaráðs aftur til vesturs en segja má að athygli Norðurlandaráðs hafi beinst til austurs frá lokum kalda stríðsins, þ.e. að Eystrasaltslöndunum, Rússlandi og Austur-Evrópu almennt. Ole Stavad gaf ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu í dönsku þingkosningunum sem fóru fram síðastliðið haust. Var honum þakkað með virktum á forsætisnefndarfundi Vestnorræna ráðsins í janúar síðastliðnum sem haldinn var í Kaupmannahöfn fyrir gott og jákvætt starf sem hann hefur lagt af mörkum í þágu vestnorræns samstarfs.

Á Norðurlandaráðsþingi sem haldið var í Ósló í lok október sl. óskaði ég sem formaður Vestnorræna ráðsins eftir því við formann og varaformann sendinefndar Evrópuþingsins, sem sér m.a. um samskiptin við Norðurlandaráð að ráðið og Evrópuþingið taki upp formlegt samstarf. Þar fylgdi ég eftir frumkvæði fyrirrennara míns Jonathans Motzfeldts sem í ræðu hjá Evrópuþinginu gerði það að tillögu sinni að Evrópuþingið og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mundi opna sérstaka upplýsingaskrifstofu um málefni norðurslóða í Brussel til að auðvelda stjórnmálamönnum og embættismönnum upplýsingaöflun og öflun gagna eða koma á formlegu samstarfi. Fundur minn með téðum formanni og varaformanni sendinefndar Evrópuþingsins, þeim Bilyana Raeva frá Búlgaríu og Jens-Peter Bonde frá Danmörku, varð til þess að formaður sendinefndarinnar mælti með því við forseta Evrópuþingsins að nefndin mundi einnig sinna samskiptum við Vestnorræna ráðið. Í þessu sambandi vil ég einnig greina frá því að Vestnorræna ráðið mun halda fyrsta formlega fund sinn með sendinefnd Evrópuþingsins í lok apríl þegar hún kemur til fundar við þingmannanefnd EES á Íslandi.

Sem formaður Vestnorræna ráðsins sótti ég fund þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldinn var í Kanada í október sl. Þar voru m.a. til umfjöllunar mál er varða vestnorrænu löndin svo sem björgunarmál, jafnréttismál, menntamál og heilbrigðismál, einkum tengd misnotkun áfengis og fíkniefna.

Í annan stað vil ég víkja að ályktunum Vestnorræna ráðsins frá því á síðasta ársfundi og þakka jákvæðar viðtökur þeirra ráðherra við ályktunum ráðsins sem ég kynnti fyrir þeim á sérstökum fundum sem formaður Vestnorræna ráðsins á sama tíma og Norðurlandaráðsþingið fór fram í Ósló. Það er ósk mín að ályktanir ráðsins verði teknar til framkvæmda af ríkis- og landstjórnum allra Vestur-Norðurlandanna.

Næsti ársfundur ráðsins verður haldinn 25.–28. ágúst næstkomandi í Grundarfirði. Í tengslum við ársfundinn verður einn dagur sérstaklega helgaður sameiginlegri sögu og menningu vestnorrænu landanna sem unnið hefur verið að síðan árið 2002 og stefnt er að út komi á bók haustið 2009. Vestnorræna ráðið hvetur í ályktun frá árinu 2006 ríkisstjórnir landanna þriggja að gera sameiginlegt námsefni til kennslu í grunnskólum um sögu, menningu, trúmál og tungumál landanna.

Halldór Pálsson bókaútgefandi hefur gefið út bók um hvert og eitt vestnorrænu landanna í máli og myndum og farið þess á leit við mennta- og menningarmálaráðherra Vestur-Norðurlandanna að bækurnar um hvert land verði þýddar og gefnar út sem námsefni um vestnorræna sögu, menningu og tungumál. Vestnorræna ráðið hefur í ljósi fyrrnefndar ályktunar nr. 5/2006 lýst yfir stuðningi við framtakið þar sem það uppfyllir væntingar og tilgang hennar. Fjárlaganefnd Alþingis hefur veitt eina milljón króna til verksins sem er 1/6 af upprunalegri fjárbeiðni til íslensku ríkisstjórnarinnar en fullur stuðningur hefur fengist bæði í Færeyjum og á Grænlandi. Það er einlæg ósk mín að hæstv. ríkisstjórn geti lagt þessu máli frekara lið svo lyktir þess verði sem til stóð.

Hafin er vinna við ritun sameiginlegrar sögu Vestur-Norðurlandanna á grundvelli ályktunar ráðsins frá árinu 2000. Verkið endurspeglar eitt meginhlutverk Vestnorræna ráðsins sem er að varðveita og viðhalda menningararfleifð landanna og skapar þar með samkennd með löndunum og viðheldur tengslum á milli þeirra. Áætlað er að ritið komi út á allra næstu árum. Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins eru einnig liður í þessari viðleitni en annað hvert ár tilnefna dómnefndir í löndunum þremur eina bók, hver frá sínu landi, sem keppa um verðlaunin. Í desember 2007 var skáldsagan Draugaslóð eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur tilnefnd af íslensku dómnefndinni til barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins. Vestnorræn dómnefnd velur síðan eina af þessum bókum til verðlauna, sem veitt verða í ágúst á næsta ári og verður það í fjórða sinn sem verðlaunin eru veitt.

Markmiðið með barnabókaverðlaununum er að hvetja vestnorræna barna- og unglingabókahöfunda til dáða. Auk þess er vonast til að með verðlaununum verði ungmennum Vestur-Norðurlanda gert betur kleift að kynna sér vestnorrænar bókmenntir og menningu. Þær bækur sem hljóta tilnefningu eru þýddar á vegum menntamálaráðuneyta landanna á vestnorrænu málin og á dönsku. Til að stuðla enn frekar að kynnum vestnorrænna barna að menningu hvers annars var ákveðið í tilefni tíu ára afmælis Vestnorræna ráðsins að setja á stofn sérstakan afmælissjóð í samræmi við ályktun ráðsins nr. 4/2006. Markmið sjóðsins verður að efla ungmennasamskipti milli Vestur-Norðurlandanna með reglulegum heimsóknum skólabarna og sá þannig fræjum að tengslum landanna til framtíðar.

Frú forseti. Það er ljóst að margvísleg sameiginleg málefni hafa verið tekin fyrir og eru á döfinni hjá Vestnorræna ráðinu, málefni sem varða mannlíf og menningu og auðlindir, velferð og umhverfi vestnorrænu landanna. Það er von Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins að málefnum vina okkar hér í vestrinu verði áfram sýndur áhugi hér á Alþingi eins og vera ber. Að lokum leyfi ég mér að þakka Magneu Marinósdóttir, ritara Íslandsdeildarinnar, sem og Þórði Þórarinssyni, framkvæmdastjóra ráðsins, fyrir samviskusamlega og vel unnin störf í þágu ráðsins. Einnig færi ég þingmönnum Íslandsdeildarinnar hinar bestu þakkir fyrir samstarf.

Ég vil í lokin, frú forseti, hnykkja á því að þingsályktunartillögur Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sem nú liggja fyrir Alþingi, fjalla um björgunarmál, sameiginlegar vestnorrænar rannsóknir á nytjastofnum sjávar, um jafnréttismál og menntamál. Lýsi ég yfir ánægju minni hversu góðar undirtektir tillögurnar hafa hlotið almennt, ekki síst hér á Alþingi.

Lýk ég hér með máli mínu um störf Vestnorræna ráðsins.