135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

skýrslur um norrænt samstarf 2007.

452. mál
[12:38]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að ég hef verið fulltrúi Íslands í þessu samstarfi sem er nýlega hófst. Það er svolítið sérstakt að fulltrúi stjórnarandstöðunnar, sem ég er, skuli vera í því en ég vil sérstaklega þakka fyrir það að Íslandsdeildin kom því þannig fyrir af því að ég hef mikinn áhuga á þessu og ég mun reyna að standa mig með sóma í því samstarfi.

Það er alveg rétt að Norðurlöndin spiluðu stórt hlutverk gagnvart Eystrasaltsríkjunum og nú hafa þau tekið geysilega stórt skref. Þau eru komin inn í Evrópusambandið og eru komin inn í allt annað lagaumhverfi en þau voru í og eru í mikilli sókn og þar er verið að vinna á mjög öflugan hátt gagnvart öryggismálum og því að auka velferð á allan hátt. Þá hlýtur kastljósið að beinast að ríkjunum sem eru þar í grendinni. Íslendingar, eins og öll önnur norræn ríki, hafa mikla hagsmuni af því að vera í mjög góðu samstarfi við Rússa og við löndin sem þar liggja í kring eins og Úkraínu og Hvíta-Rússland. Ráðstefnan sem var í fyrra og verður fram haldið í næstu viku er mjög mikilvæg fyrir þær sakir að við viljum gjarnan byggja upp traust og góð tengsl við Hvíta-Rússland.

Þarna kom fulltrúi frá Lúkasjenkó-flokknum, þingmaður frá Hvíta-Rússlandi, en líka fulltrúar stjórnarandstöðunnar. Það er enn þá þannig að það er verið að fangelsa fulltrúa stjórnarandstöðunnar og einn þingmaður komst t.d. ekki á ráðstefnuna af því að hann var í fangelsi og það kom varamaður fyrir hann. Það eru mjög mörg mál sem er mikilvægt að ræða við nágrannaríki okkar í austri. Þar má nefna loftslagsmálin, orkumálin, það er mjög mikið tekist á um orkumál á þessu svæði og svo auðvitað viðskipti að öðru leyti. Ég tek því undir með hv. þm. Árna Páli Árnasyni varðandi það samstarf sem þarna er að hefjast, (Forseti hringir.) ég hef fulla trú á því að þetta sé bara fyrsta skrefið á mjög langri og gæfuríkri leið.