135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

skýrslur um norrænt samstarf 2007.

452. mál
[12:58]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með að hv. formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs skuli sakna samstarfsráðherrans jafnmikið og ég geri. Ég tek undir það með honum að við þurfum að læra af þessu, þetta á ekki að geta gerst.

Það eru verulega góðar fréttir — sem ég vissi raunar ekki — að téður samstarfsráðherra, hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson, skuli vera að taka að sér formennsku í samstarfinu milli samstarfsráðherranna á næsta ári. Mér finnst tónninn í ræðu og andsvari hv. þingmanns líka gefa mér vísbendingar um að Íslandsdeild Norðurlandaráðs muni standa sameinuð að baki ráðherrum sínum í því samstarfi að gera fundinn í Kaupmannahöfn sem veglegastan og þá þátt okkar Íslendinga, íslenskra vísindamanna, íslensks almennings, íslensks skólafólks og íslenskrar æsku, og ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að við förum að sjá hjá ráðherrunum einhverja áætlun um það á hvern hátt við ætlum að standa að þessari vinnu.