135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

skýrslur um norrænt samstarf 2007.

452. mál
[13:01]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni, gríðarleg tækifæri eru í þessu fólgin og ég fagna því vissulega að hann skuli vera sama sinnis og ég hvað það varðar að við þurfum að nýta tækifærið vel.

Í þessu eru kannski líka fólgin skilaboð til samstarfsráðherra Norðurlanda, hæstv. iðnaðarráðherra Össurar Skarphéðinssonar, og hæstv. umhverfisráðherra, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, um það að hafa áhrif á forsætisráðherra, en hann situr jú í norrænu ráðherranefndinni fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar. Það er norræna ráðherranefndin sem ætlar sér að eyða rúmum einum milljarði íslenskra króna í hnattvæðingarverkefni á sama tíma og Norðurlandaráð og samstarfsráðherrarnir eru ákafir í að undirbúa verkefni tengd fundi Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn 2009. Þessir tveir ráðherrar, sem hv. þm. Árni Páll Árnason nefnir, verða þá að tala þessu máli við hæstv. forsætisráðherra þannig að ekki fari frá okkur misvísandi skilaboð.

Það er mikilvægt að draga úr þeim fjármunum sem eiga að fara í hnattvæðingarverkefnið og auka fjármuni sem eiga þá í staðinn að fara í toppfundinn í Kaupmannahöfn.