135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

skýrslur um norrænt samstarf 2007.

452. mál
[13:31]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér nokkrar skýrslur er snúa að norrænu samstarfi. Í umræðum fyrir hádegið var farið vítt og breitt yfir efnið og komið víða við. Það sem ég ætla að gera að umræðuefni í ræðu minni eru annars vegar ályktanir Vestnorræna ráðsins um hafrannsóknir í Norðurhöfum og hins vegar um eflingu björgunarmála á norðurslóðum. Að hinu leytinu mun ég ræða almennt um breytingar á hafsvæði norðursins og það sem hér hefur verið rætt um í morgun, m.a. um auknar siglingar á norðurslóðum, áherslur ríkja eins og Noregs og Rússlands á að nýta olíu í Barentshafi á komandi árum og áratugum og þá væntanlega dreifingu þeirrar olíu um veröldina.

Varðandi ályktanir Vestnorræna ráðsins þá var afar ánægjulegt að fá að taka þátt í þeim störfum og fundurinn sem við áttum í Nuuk á Grænlandi var mjög árangursríkur að því leyti að þær tillögur sem við fulltrúar Íslands komum með inn á þá ráðstefnu voru samþykktar þar. Þær hafa reyndar verið kynntar hér sem tillögur til samþykktar fyrir hv. Alþingi. Ég tel að þar hafi verið hreyft afar merkilegum málum eins og auknum hafrannsóknum, sérstaklega með tilliti til þess sem við eigum mikla hagsmuni í eins og nýtingu sjávarauðlindanna og breytingu á hafstraumum. Einnig var rætt um minnkandi hafís hér norður og norðvestur af landinu og annað sem getur haft áhrif á breytilegar göngur fiskstofna og breytilega hegðun. Þetta upplifum við Íslendingar nú sjálfir.

Við sjáum að loðnan hagar sér með öðrum hætti en menn hafa átt von á eða hafa átt að venjast hér á árum áður. Staðreyndin er sú að það hefur eiginlega ekki tekist af neinu viti að mæla stærð loðnustofnsins á undanförnum árum fyrr en loðnan er komin vestur fyrir Hornafjörð. Erum við þó búin að eyða miklum fjármunum og skipaferðum í að rannsaka loðnustofninn á öðrum hafsvæðum og norður í höfum án þess að geta fest hönd á því hvað stofninn er stór. Þetta sýnir okkur auðvitað þann breytileika sem er í lífríkinu og í því sambandi er auðvitað rétt að vekja athygli á því að loðnan er jú meginfæðustofn þorsksins. Í eðlilegu árferði er loðna 35% af fæðuinnihaldi þorsksins, af öllu fæðunámi hans á ársgrundvelli. Auðvitað er það miklu meira á ákveðnum árstímum þegar loðnan stendur honum best til boða eins og á göngumynstri loðnunnar haust, vetur og vor — og svo norður í höfum á fæðuslóð þorskstofnsins sem þangað leitar.

Með hlýnandi sjó er greinilegt að loðnan gengur norðar og hagar sér öðruvísi en verið hefur og þá er spurning hvort hún er jafnmikill fæðugjafi yfir sumartímann og áður var og hvort þorskurinn sækir þá nægilega norður í hafið til þess að nýta sér hana á sumarslóðum. Þetta kallar á nýjar rannsóknir og að við tökum upp víðtækt samstarf við vini okkar og samstarfsmenn í Vestnorræna ráðinu, Grænlendinga, þangað sem loðnan leitar örugglega í vaxandi mæli miðað við hlýnun sjávar hér norður af landinu. Við höfum auðvitað séð hlýnunina við norðurströnd landsins á undanförnum árum sem hefur m.a. orðið til þess að svartfuglinn virðist ekki ná til smáloðnunnar að vetrarlagi. Við höfum nú séð svartfugladauða tvö, þrjú ár í röð sem er hreinlega vísbending um það að hafið er ekki eins og það var.

Þetta gaf okkur, fulltrúum Íslands í Vestnorræna ráðinu, auðvitað tilefni til þess að koma með sérstaka ályktun um hafrannsóknamálin og henni hefur verið vel tekið. Ég vænti þess að hún verði til aukins samstarfs milli þjóða í Vestnorræna ráðinu og á þessum hafsvæðum frá Færeyjum í austri til Grænlands í vestri. Það er afar nauðsynlegt að auka rannsóknir á Norðurhafinu og fara í þær með allt öðrum hætti og öðru hugarfari en við höfum verið að gera á undanförnum árum. Kannski þarf að fara sérstaklega yfir hafsvæðið þegar það er íslaust eða íslítið seinni part árs og snemma hausts eins og verið hefur að undanförnu, bráðnun hafíssins hefur verið mjög mikil. Hún gerir það að verkum að hafsvæðið er svo til autt á þessum siglingaleiðum langt norður í höf, jafnvel 300–400 sjómílur norður af Íslandi án þess að sjáist til hafíss.

Þá vil ég aðeins víkja að því sem snýr að siglingum í Norðurhöfum og nýtingu auðlinda eins og því sem minnst hefur verið á varðandi nýtingu Norðmanna á olíu undir botni Barentshafs. Rússar eru einnig þar á ferðinni. Síðan hefur verið rætt um auknar siglingar á norðurslóðinni vegna þess að hlýnunin valdi því að hafísinn bráðni og siglingaleiðir opnist. Allt er þetta satt og rétt en þó ekki nema að hluta til vegna þess að þótt hafísinn bráðni, sem er nýmyndaður ís sem myndast á hverjum vetri á hafinu norðan Íslands og á Norðurskautinu öllu þá bráðna borgarísjakarnir ekki með sama hætti. Þeir eru reyndar allt annarrar gerðar en hafísinn sem frýs úr söltu vatni sjávarins en borgarísinn er landmyndaður ís sem skríður undan skriðjöklum og til hafs. Hann er allt annars eðlis og miklu stórgerðari en það sem við köllum hafís í venjulegu tali.

Í því sambandi þurfa menn auðvitað að hafa í huga að þótt hafísinn bráðni að sumarlagi hverfur borgarísinn ekki. Þegar menn eru farnir að sigla um Norðurhafið og gera kannski ráð fyrir því að sáralítil eða engin hindrun sé á hafinu — menn geti bara leyft sér að sigla um það eins og þar sé ekki neinnar hættu að vænta — þá er fyrst orðin hætta á því að menn geri mistök. Borgarísinn rekur með öðrum hætti, hann rekur með straumum. Ef hann berst t.d. upp að norðurkanti landgrunnsins þá fer borgarísinn að hreyfast með Austur-Íslandsstraum og rekur austur. Þess vegna er það svo að vindafar á norðurslóðum stjórnar ekki reki borgaríssins þegar straumarnir eru annars vegar. Megnið af borgarísnum berst með Austur-Grænlandsstraumnum suður með austurströnd Grænlands og kemur ekki hingað en hluti af honum lendir inni í Austur-Íslandsstraumnum og getur þess vegna borist langt austur með landinu og jafnvel suður með Austfjörðum ef því er að skipta. Auðvitað þekkja menn sem búa við norðurströnd landsins að borgarísinn fer mjög oft inn á Húnaflóann og það er einfaldlega vegna þess að úr Austur-Íslandsstraumnum liggur köld tunga inn Húnaflóann og dregur með sér borgarísinn upp að ströndum og inn á Húnaflóann.

Úr þessum ís brotnar sífellt og um 90% af stærð og þunga borgaríssins er neðan sjávar þannig að þegar menn sigla upp að borgarís sem stendur 50 metra upp úr sjónum geta menn reiknað út hvað sé þá fyrir neðan. Það eru þessir borgarísjakar sem breyta landslagi sjávarbotnsins. Þeir gera það allverulega þegar þeir ferðast um svæði þar sem þeir ná til botns. Fiskislóð eins og Halinn t.d. hefur orðið illfær til togveiða á ákveðnum blettum í nokkra mánuði. Við togaraskipstjórnir höfum sléttað svæðið aftur eftir að borgarís hefur strandað þar, stoppað og gert djúp för ofan í botninn.

Í þessu liggur auðvitað hætta ef menn ætla að fara að nýta olíu norðurslóðanna, eins og talað er um að gera í Barentshafi. Menn þurfa þá auðvitað að svara þessu: Hvernig á að koma olíu til lands án þess að valda miklum skaða og mikilli mengun í hafinu? Það er akkúrat borgarísinn sem getur rofið allar leiðslur sem lagðar eru í botninn, jafnvel þótt þær séu plægðar niður í botninn vegna þunga síns og eiginleika. Þó að menn séu vissulega farnir að gæla við það að koma olíulögnunum verulega niður í sjávarbotninn þarf að svara þessum spurningum.

Hafstraumarnir í Norðurhafi eru þannig að allt sem gerist þar, þ.e. á svæðinu milli Austur-Grænlands til Svalbarða og yfir í Barentshaf endar með því að fara hringferð norðan Svalbarða og þess vegna Frans Jósefslands út undir Grænland og ber síðan suður með Austur-Grænlandsstraumi — og hvert þá? Í áttina til Íslands og getur þess vegna borist áfram með Austur-Íslandsstraumnum að norðurströnd landsins.

Hvers vegna er ég að ræða þetta svo ítarlega? Jú, það er vegna þess að mér finnst að í umræðunni séu menn oft að tala um að þessi vandamál séu auðleyst, þetta sé eitthvað sem við getum bara gert á næstu tíu árum. Ég held að það sé mikill misskilningur svo framarlega sem menn ætla sér að gæta varúðarsjónarmiða varðandi mengun og olíuslys. Í því sambandi má auðvitað minna á olíuslys sem varð norðarlega við vesturströnd Kanada í köldum sjó. Nú tíu árum síðar eru menn enn þá að reyna að hreinsa þar olíu af ströndinni. Þetta er því eitthvað sem við þurfum virkilega að hafa í huga. Hinu er ekki að leyna að siglingar munu örugglega fara inn á þetta hafsvæði, bæði siglingar olíuflutningaskipa og gasskipa og annarra vöruflutningaskipa og þá kemur auðvitað að því að huga að reglum Alþjóðasiglingamálastofnunar um siglingar á norðurslóðum. Þar er alla vega gerð krafa til olíuflutninga- og gasskipa um að þau séu með svokallaðan tvöfaldan byrðing, þ.e. að þau þoli að fá gat á ytri byrðinginn án þess að skipið hætti að vera sjóhæft eða sökkvi.

Á síðasta sumri kom gat á rússneskt olíuflutningaskip norðan við land. Það var tekið inn til Hafnarfjarðar, skoðað og síðan leyft að sigla frá landinu gegn því að siglt yrði á ákveðnum hraða og var ekki talin stafa af því stórkostleg hætta. Ég dreg þetta fram, hæstv. forseti, vegna þess að mér finnst nauðsynlegt að vekja athygli á því að þessar hættur eru fyrir hendi. Það er mikil einföldun að halda því fram að innan tíu, fimmtán ára sé þetta allt eins og breiðstræti sem allir geti siglt um án nokkurrar hugsunar eða aðgæslu. Það er mikill misskilningur.

Það vill svo til að sá sem hér stendur var togaraskipstjóri í yfir 30 ár og var oft að þvælast inni í þessum venjulega hafís en maður forðaðist náttúrlega borgarísjakana eins og maður gat. Hafísinn er ekki mjög hættulegur þó að hann sé tveggja, þriggja til fjögurra metra þykkur. Hann er miklu mýkri ís, frosinn saltur sjór en ekki bergvatn eins og landísinn. Þess vegna er afar nauðsynlegt að menn skoði þessi mál í fullri alvöru. Fyrst og fremst þurfum við að huga að mengunarsjónarmiðum. Við þurfum líka að huga að því hvernig við ætlum að tryggja öryggi okkar hér á landi. Ætlum við að hafa hér viðbúnað eins og öfluga dráttarbáta sem dregið geta hin gríðarlega stóru olíuskip þó að þau verði vélarvana við mismunandi og erfiðar aðstæður norðan Íslands eða ætlum við ekki að koma okkur upp slíkum búnaði? Ætlum við þá að bíða í tvo til þrjá sólarhringa eftir að slíkt skip sigli frá Noregi til þess að bjarga því að hér verði ekki stórslys? Það kann að vera allt of langur viðbragðstími. Þrátt fyrir að verið sé að byggja nýtt varðskip fyrir okkur núna — sem væntanlega kemur til landsins innan fárra ára og verður okkur til gagns — þá er það ekki það öflugt að það ráði við stór olíuskip til þess að koma í veg fyrir að þau valdi hér stórkostlegri mengun.