135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

skýrslur um norrænt samstarf 2007.

452. mál
[13:46]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mjög margt fróðlegt kom fram hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni sem þekkir manna best hér, þingmanna, lífið á miðunum fyrir norðvestan Ísland og á sundinu milli Íslands og Grænlands.

Í ljósi þess sem hv. þingmaður og skipstjóri sagði áðan þá langar mig að koma með spurningu út frá orðum hans um þessa hættu í sambandi við olíuskip og fleira, þ.e. hvort hann telji ástæðu til að koma upp einhvers konar auknum björgunarbúnaði eða einhverju slíku á Vestfjörðum í tengslum við þessar auknu siglingar sem menn eru sífellt að tala um að muni verða og eru kannski þegar farnar að koma.